Einhver gangur er kominn í kjaraviðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga, eftir fundahöld síðustu daga. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist skynja meiri vilja til samtals af hálfu samninganefnda ríkis og sveitarfélaga þó að enn beri mikið í milli. Eigi árangur að nást þurfi samningsviljinn hins vegar að ná út fyrir samningaborðið.
Einhver gangur er kominn í kjaraviðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga, eftir fundahöld síðustu daga. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist skynja meiri vilja til samtals af hálfu samninganefnda ríkis og sveitarfélaga þó að enn beri mikið í milli. Eigi árangur að nást þurfi samningsviljinn hins vegar að ná út fyrir samningaborðið.
Einhver gangur er kominn í kjaraviðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga, eftir fundahöld síðustu daga. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist skynja meiri vilja til samtals af hálfu samninganefnda ríkis og sveitarfélaga þó að enn beri mikið í milli. Eigi árangur að nást þurfi samningsviljinn hins vegar að ná út fyrir samningaborðið.
Samninganefnd ríkisins, sem hefur framhaldsskólana á sínu forræði, kom aftur inn í viðræðurnar í gær, eftir að viðræðuhlé í þeim hluta deilunnar hafði staðið yfir í rúma viku.
„Við greinum töluvert meira samtal síðustu daga en síðustu vikur. Staðan er alvarleg. Það er stutt í aðgerðir sem við viljum vera laus við, en erum búin að lyfta upp að séu greinilega hluti þess að við náum eyrum fólks. Það er bara því miður þannig,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.
Ef samningar nást ekki fyrir 1. febrúar hefjast verkfallsaðgerðir á ný og kennarar í 14 leikskólum og sjö grunnskólum leggja niður störf. Þá hefur Félag framhaldsskólakennara gefið út að farið verði í atkvæðagreiðslu um ótímabundin verkföll í nokkrum framhaldsskólum, eftir að friðarskyldu lýkur um mánaðamótin.
Magnús segir þreifingar í gangi á milli deiluaðila. Kallað hafi verið eftir skýrari skilaboðum frá stjórnvöldum, hvernig málið horfi við þeim. Bent hafi verið á að til að markmið náist þurfi að fjárfesta í kennurum. Hann bindur vonir við að sú umræða sé í gangi hjá baklandi samninganefnda bæði sveitarstjórna og ríkisins.
„Ef við ætlum að ná árangri þá þarf samningsviljinn að ná út fyrir samninganefndirnar og samningsborðið. Þetta snýst um að við fjárfestum í skólakerfinu og komum til móts við þá stöðu sem þar er uppi. Okkur vantar um 4.000 kennara inn í kerfin okkar. Það er ekki bara verkefni okkar í samninganefndunum að leysa þann vanda. Það þarf að fara í gegnum alla hagaðila skólakerfisins. Þreifingarnar eru svolítið í þá átt, hvernig það gæti komið út.“
Ertu bjartsýnn á að samningar náist fyrir 1. febrúar?
„Það ber mikið í milli, en ég vona að það sé kominn samtalsgrunnur, sem þýðir að þegar fólk fer af stað í svona vinnu og við náum að sameinast um hvaða leiðir við ætlum að fara, þá er alveg hægt að láta hlutina ganga. Við munum sitja eins lengi og við þurfum, hvort sem það eru dagar, nætur, helgar, mánuðir eða ár, til að koma verkefninu áfram,“ segir Magnús.
„Ef við fáum hljómgrunn um það við samningsborðið að þær leiðir sem eru að teiknast upp vísi á eitthvað, þá eigum við sannarlega möguleika á að koma í veg fyrir aðgerðir. En þar skiptir hver dagur og hver klukkutími mjög miklu máli,“ bætir hann við.
Ef staðan verður þannig í lok janúar að það eygir í land í þessum viðræðum, eru þið tilbúin að fresta aðgerðum?
„Við erum alltof stutt komin á veg til að tala um eitthvað svoleiðis. Það teiknast bara upp samhliða því sem er í gangi. Við erum bara algjörlega á byrjunarreit þannig séð. Það á eftir að koma í ljós hvernig okkur gengur áfram með þessar hugmyndir, sem byggja á okkar markmiðum og horfa til þess að við komum inn og lyftum kerfunum enn þá hærra og aukum þar fagmennsku. En það er allt of snemmt að segja til um hver gangurinn verður. Við erum bara í samtölum núna sem vonandi þróast í rétta átt.“