Bráðabirgðalögbann á Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti | 23. janúar 2025

Afturköllun fæðingartengds ríkisfangs frestað

Bandaríski alríkisdómarinn John C. Coughenour í Seattle hefur úrskurðað að sú fyrirætlun Donalds Trumps forseta, að ógilda réttindi til bandarísks ríkisborgararéttar byggð á fæðingu, svokallaða Birthright Citizenship Order, gangi freklega í berhögg við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Afturköllun fæðingartengds ríkisfangs frestað

Donald Trump Bandaríkjaforseti | 23. janúar 2025

Repúblikanaþingmaðurinn Brian Babin ávarpar blaðamannafund í Capitol Hill í Washington …
Repúblikanaþingmaðurinn Brian Babin ávarpar blaðamannafund í Capitol Hill í Washington í dag ásamt samflokksmönnum og kynnir þar áætlun þingmanna flokksins, og Trumps forseta, um að ógilda ríkisborgararéttindi byggð á fæðingu í Bandaríkjunum. AFP/Chip Somodevilla

Bandaríski alríkisdómarinn John C. Coughenour í Seattle hefur úrskurðað að sú fyrirætlun Donalds Trumps forseta, að ógilda réttindi til bandarísks ríkisborgararéttar byggð á fæðingu, svokallaða Birthright Citizenship Order, gangi freklega í berhögg við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Bandaríski alríkisdómarinn John C. Coughenour í Seattle hefur úrskurðað að sú fyrirætlun Donalds Trumps forseta, að ógilda réttindi til bandarísks ríkisborgararéttar byggð á fæðingu, svokallaða Birthright Citizenship Order, gangi freklega í berhögg við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Hefur dómarinn frestað gildistöku forsetatilskipunar Trumps um ógildinguna um fjórtán daga með bráðabirgðalögbanni.

Ganga réttindin, sem nú eru löglega við lýði í Bandaríkjunum, út á að þegnarnir öðlist ríkisborgararétt annaðhvort við að fæðast á bandarískri grundu – kallast sá hluti reglunnar jus soli – eða með því að minnst annað foreldri hafi verið bandarískur ríkisborgari við fæðingu þess sem í hlut á, það er jus sanguinis.

Þingmenn fjögurra ríkja mótmæltu

Á mánudaginn undirritaði Trump tilskipun um að fæðingartengdu réttindin skyldu afnumin, en Coughenour dómari frestaði gildistökunni í dag eftir að hafa hlýtt á 25 mínútur af rökstuðningi Brett Shumate, lögfræðings bandaríska dómsmálaráðuneytisins, og hafði Shumate þó ekki lokið máli sínu þegar dómarinn kvað upp úrskurð sinn.

Donald Trump með eina af sínum mörgu nýundirrituðu forsetatilskipunum.
Donald Trump með eina af sínum mörgu nýundirrituðu forsetatilskipunum. AFP

Var málið lagt fyrir dómarann að áeggjan þingmanna Demókrataflokksins í fjórum ríkjum landsins, Arizona, Illinois, Oregon og Washington, með þeim rökstuðningi að sú fyrirskipun forsetans, að gera fæðingartengda ríkisborgararéttinn að engu, gengi í berhögg við fjórtánda viðauka stjórnarskrár landsins sem mælir fyrir um að hver sá sem fæðist í Bandaríkjunum njóti þar ríkisborgararéttar.

Man ekki eftir öðru eins

Gengur undirritað boð forsetans út á að barn öðlist ekki rétt til bandarísks ríkisborgararéttar, þrátt fyrir fæðingu í landinu, ef hvorugt foreldrið er bandarískur ríkisborgari eða handhafi löglegs landvistarleyfis.

Nái ætlunarverk Trumps fram að ganga verða rúmlega 150.000 nýburar ár hvert af því að öðlast bandarískt ríkisfang, ef marka má það sem þingmenn Demókrataflokksins í ríkjunum fjórum hafa reiknað út.

„Ég hef sinnt dómarastörfum í rúmlega fjóra áratugi og ég man ekki eftir eins skýru dæmi um skýlaust brot gegn stjórnarskrá,“ sagði Coughenour dómari í samtali við NBC-sjónvarpsstöðina í dag eftir að hann kvað upp úrskurð sinn, en við lok fjórtán daga frestsins verður málið tekið fyrir á ný fyrir rétti þar sem bráðabirgðalögbannið verður annaðhvort staðfest ellegar það rennur skeið sitt á enda og fæðingartengdi ríkisborgararétturinn er úr sögunni þegar foreldrar barns eru ekki ríkisborgarar eða handhafar löglegs landvistarleyfis.

CNN

Reuters

AP

mbl.is