Mette Frederikssen, forsætisráðherra Dana, er sögð leita eftir stuðningi frá Norðurlöndunum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði á laugardag að hann hygðist leggja undir sig Grænland.
Mette Frederikssen, forsætisráðherra Dana, er sögð leita eftir stuðningi frá Norðurlöndunum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði á laugardag að hann hygðist leggja undir sig Grænland.
Mette Frederikssen, forsætisráðherra Dana, er sögð leita eftir stuðningi frá Norðurlöndunum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði á laugardag að hann hygðist leggja undir sig Grænland.
Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Alexander Stubb Finnlandsforseti sóttu óformlegan kvöldverð Frederiksens í kvöld.
DR segir heimildir sínar herma að tilgangur fundarins hafi verið að tryggja stuðning Norðurlandanna í deilum Dana og Bandaríkjamanna er varða Grænland.
„Við ræddum svæðisöryggi, þ.á.m. sæstrengsrof í Eystrasalti, styrkingu á norrænni þjóðaröryggissamvinnu og stuðning okkar við Úkraínu,“ skrifar Støre á X, áður Twitter, þar sem hann deilir mynd af þeim fjórum.
Í síðustu viku ræddi Frederiksen við Trump í síma í þrjú korter þar sem forsætisráðherrann ítrekaði að Grænland væri ekki falt. Evrópskir ráðamenn sem fengu að heyra um innihald símtalsins lýsa símtalinu m.a. sem „logandi“ í umfjöllun Financial Times.
„Þetta var hræðilegt,“ segir einn þeirra við Financial Times. Annar ráðamaður bætir við: „Þetta var köld sturta. Áður var erfitt að líta á þetta alvarlegum augum. En ég held að þetta sé alvarlegt, og hugsanlega afar hættulegt.“
Fyrrverandi ráðamaður í Danmörku sem þekkti til málsins sagði að Trump hefði hótað Dönum með tollum til þess að ná máli sínu í gegn.
Og um aðfaranótt laugardags ítrekaði Trump enn á ný að hann sæktist eftir yfirráðum á Grænlandi.
„Ég held að við fáum það,“ sagði Trump um Grænland er hann ræddi við blaðamenn aðfaranótt laugardags, samkvæmt umfjöllun BBC. Hann sagði enn fremur að Grænlendingar, sem telja 57 þúsund, „vilji vera með okkur.“
Þessi staðfesta Trumps til að leggja undir sig Grænland þvert á óskir Dana skekur nú Kristjánsborgarhöll. Þrýstingur hefur aukist á dönsk stjórnvöld og nú leitar Frederiksen, sem fyrr segir, eftir stuðningi frá nágrannaríkjum fyrst Bandaríkjaforseti virðist ekki ætla að gefa neitt eftir.
Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, segir einnig við DR að nýtt frumvarp sé í smíðum um auknar varnir á norðurslóðum. Hann kveðst þó bjartsýnn fyrir aukinni samvinnu með Bandaríkjunum.
Stjórnarandstaðan beitir ríkisstjórnina líka þrýstingi.
„Það er enginn vafi um að Trump meini þetta í alvörunni,“ segir stjórnarandstöðuþingmaðurinn Martin Lidegaard, fyrrverandi ráðherra úr miðjuflokknum Radikale Venstre.
Inger Støjberg, formaður hægriflokksins Danmarksdemokraterne, segir við DR að Frederiksen þurfi að „manna sig upp“.
Fulltrúar grænlensku landstjórnarinnar hafa ekki tjáð sig um nýju ummæli Bandaríkjaforseta.
Sumir fulltrúar stjórnarandstöðu hvetja Trump áfram – þó ekki vegna þess að þeir hafi einhvern sérstakan áhuga á að heyra undir Bandaríkin, heldur vegna þess að þeir telja áhuga Trumps á eyjunni aðeins renna stoðum undir raddir sjálfstæðissinna í Grænlandi.
Pele Broberg formaður Naleraq, stjórnarandstöðuflokks sem er hlynntur sjálfstæði Grænlands, biðlaði til Trumps í útvarpsþætti á P1: „Haltu áfram með það sem þú ert að gera, því það gagnast að því leyti sjálfstæðishreyfingunni hérna upp eftir.“
DR hefur rætt við alla stjórnarflokkana í Grænlandi, enginn hverra sagðist hafa áhuga á að gerast hluti af Bandaríkjunum.