Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, leikkona og lögfræðingur hjá Barna- og fjölskyldustofu, giftist sínum heittelskaða, Kormáki Friðrikssyni, hæstaréttarlögmanni, í fallegri athöfn milli jóla og nýárs. Nýbökuðu hjónin, sem eiga tvö börn, Kolbein Þór og Auði Kolfinnu, hittust fyrst á menntaskólaaldri, í sænskukennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en kynntust almennilega mörgum árum seinna þegar þau unnu á sama vinnustað.
Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, leikkona og lögfræðingur hjá Barna- og fjölskyldustofu, giftist sínum heittelskaða, Kormáki Friðrikssyni, hæstaréttarlögmanni, í fallegri athöfn milli jóla og nýárs. Nýbökuðu hjónin, sem eiga tvö börn, Kolbein Þór og Auði Kolfinnu, hittust fyrst á menntaskólaaldri, í sænskukennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en kynntust almennilega mörgum árum seinna þegar þau unnu á sama vinnustað.
Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, leikkona og lögfræðingur hjá Barna- og fjölskyldustofu, giftist sínum heittelskaða, Kormáki Friðrikssyni, hæstaréttarlögmanni, í fallegri athöfn milli jóla og nýárs. Nýbökuðu hjónin, sem eiga tvö börn, Kolbein Þór og Auði Kolfinnu, hittust fyrst á menntaskólaaldri, í sænskukennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en kynntust almennilega mörgum árum seinna þegar þau unnu á sama vinnustað.
Kormákur fór á skeljarnar við morgunverðarborðið á annan í jólum 2023 og 367 dögum síðar gekk parið í hnapphelduna umkringt sínum nánustu.
„Við vorum búin að tala um það lengi að gifta okkur en það var yfirþyrmandi tilhugsun að ætla að skipuleggja stóra veislu. Við vorum búin að skoða það að fara bara til sýslumanns en það var eitthvað of hversdagslegt í okkar huga. Úr varð að við ákváðum með sex vikna fyrirvara að halda litla athöfn í Fríkirkjunni með okkar nánasta fólki. Planið er síðan að halda gott partí seinna til að geta fagnað þessu með fleirum og fínt að fá það skjalfest hér svo við stöndum örugglega við það,“ segir hún.
Var þetta skyndiákvörðun?
„Að einhverju leyti já. Við vorum búin að ákveða að gifta okkur en svo var það ákveðin skyndiákvörðun að drífa í því.“
Hvernig var dagurinn ykkar?
„Æðislegur!
Ég byrjaði í förðun hjá Elínu Reynis. Þegar ég hafði samband við hana kom í ljós að hún býr nánast í næsta húsi, sem var fullkomið þar sem ég var mætt eldsnemma á laugardagsmorgni í stólinn hjá henni. Við höfðum aldrei hist áður en ég fann strax að ég var í góðum höndum og ég var mjög ánægð með útkomuna.
Á meðan ég var í förðun byrjuðu hinir í fjölskyldunni að gera sig til. Þegar ég kom heim voru allir klæddir og klárir og ég fór í það að gufustrauja kjólinn og gera mig til. Unnur vinkona mín var mér til halds og trausts þennan dag og hjálpaði mér að klæða mig í kjólinn og tryggði að allt gengi smurt fyrir sig. Ég og Unnur vorum síðan samferða í kirkjuna þar sem ég náði að knúsa gestina áður en athöfnin hófst.
Sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, gaf okkur saman og athöfnin heppnaðist mjög vel. Hljómsveitin Ylja spilaði tvö lög í athöfninni og þá söng Unnur vinkona einnig í athöfninni eins og hún hafði lofað mér þegar við vorum 18 ára. Ég bað hana að syngja lagið You’rs Still The One með Shania Twain sem mér fannst eitthvað svo passandi fyrir fólk af okkar kynslóð sem er að gifta sig eftir 14 ára samband.
Eftir athöfnina var hópmyndataka og nokkrar klassískar brúðkaupsmyndir áður en við röltum yfir í Iðnó. Ég er mjög ánægð með að hafa haft ljósmyndara með til að ná myndum af fjölskyldum okkar því það er ekki á hverjum degi sem við hittumst öll. Í Iðnó borðuðum við og skáluðum. Veislan hélt síðan áfram heima hjá okkur.“
Fór mikill tími í undirbúning?
„Nei, alls ekki. Þegar við vorum búin að ákveða dag og fá staðfest að kirkjan og salurinn væri laus þá var það fyrsta sem við gerðum að bjóða öllum gestum, þannig að við gátum ekki ákveðið að fresta þessu. Þetta var ekki mikill fyrirvari fyrir gesti. Sérstaklega fyrir systur mínar sem búa erlendis en ég er ótrúlega þakklát að þær gerðu sér ferð til landsins til að geta tekið þátt í deginum með okkur.
Næsta skrefið var að finna kjól fyrir mig að klæðast. Ég pantaði kjólinn sem ég var í á netinu. Kjóllinn reyndist allt of stór en sem betur fer var mér bent á Elmu Bjarneyju sem hjálpaði mér að breyta kjólnum og sníða hann á mig.
Það gekk einhvern veginn allt upp í undirbúningi fyrir þennan dag þrátt fyrir stuttan fyrirvara og sumt virtist koma upp í hendurnar á okkur. Til að mynda pantaði ég mér óvænt blómvönd í samsöng foreldra og barna í Vesturbæjarskóla viku fyrir brúðkaupið þegar kom í ljós að mamman sem ég sat við hliðina á rekur blómafyrirtækið Blómstra. Þá fékk ég óvænt tíma í hárlitun daginn fyrir brúðkaupið hjá hárgreiðslukonunni sem mamma fer til. Ég hafði nokkru áður misst af tíma sem ég átti í klippingu og litun af því að ég lág heima með eyrnabólgu og þar sem það var ekki séns að redda nýjum tíma í desember var ég búin að sætta mig við örlög mín þar til Védís kom mér til bjargar. Þessi undirbúningur var bara skemmtilegur og vil ég færa öllum bestu þakkir sem réttu fram hjálparhönd.“
Hafði starf þitt sem listamaður áhrif á daginn?
„Ég get ekki beint sagt það fyrir utan kannski það að treysta meira en aðrir á ferlið og á það að hlutirnir reddist alltaf einhvern veginn fyrir „frumsýningu“. Mögulega bjargaði listamannshjartað líka athöfninni frá því að vera formleg skjalaundirskrift hjá sýslumanni yfir í aðeins meiri töfrastund. Mundu töfrana er mantra sem ég hef fengið lánaða frá Elísabetu Jökulsdóttur rithöfundi og ber með mér hvert sem ég fer. Þessi dagur var klárlega skreyttur töfrum.“
Kom eitthvað á óvart yfir daginn eða í öllu ferlinu?
„Kannski helst að dagurinn varð nákvæmlega eins og við höfðum séð fyrir okkur. Oft verða hlutirnir ekki alveg eins og maður sér fyrir sig en þessi dagur varð nákvæmlega það sem við vonuðumst til.“
Hvernig var að deila þessari stund með börnum ykkar, fjölskyldu og vinum?
„Ótrúlega dýrmætt. Mér fannst svo gott að hafa athöfnina smærri í sniðum, hafa tíma til að horfa í augun á öllum sem ég elska og leyfa öllum börnum í kringum okkur að vera þátttakendur í athöfninni og veislunni.“
Hvað var eftirminnilegast?
„Hamingju- og þakklætistilfinningin sem yfirtók allan daginn.“
Hvernig var dagurinn eftir brúðkaupsdaginn?
„Mjög rólegur og friðsæll. Við röltum yfir til vina okkar, Guggu og Grímars, og sóttum barn úr næturpössun og fengum síðbúinn morgunmat sem samanstóð af pönnukökum og frönskum ostum.“
Hver er lykillinn að góðu sambandi (í ykkar tilfelli að minnsta kosti)?
„Það er mjög erfitt að svara án þess að það hljómi of væmið eða klisjukennt. Við skulum gera heiðarlega tilraun. Að finna manneskju sem þér finnst gaman að eyða tíma með og þú laðast að. Að geta átt góð samskipti um erfiða og skemmtilega hluti og hafa sömu lífsgildi.“