Gunnlaugur Arnar Ingason bakari og konditor, alla jafna kallaður Gulli Arnar, á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Nýliðið ár var annasamt hjá Gulla Arnari, bæði í bakaríinu og einkalífinu og fæðing yngri sonarins var án efa hápunkturinn í lífi hans eins og hann segir sjálfur frá.
Gunnlaugur Arnar Ingason bakari og konditor, alla jafna kallaður Gulli Arnar, á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Nýliðið ár var annasamt hjá Gulla Arnari, bæði í bakaríinu og einkalífinu og fæðing yngri sonarins var án efa hápunkturinn í lífi hans eins og hann segir sjálfur frá.
Gunnlaugur Arnar Ingason bakari og konditor, alla jafna kallaður Gulli Arnar, á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Nýliðið ár var annasamt hjá Gulla Arnari, bæði í bakaríinu og einkalífinu og fæðing yngri sonarins var án efa hápunkturinn í lífi hans eins og hann segir sjálfur frá.
„Það er nóg framundan á komandi vikum og mánuðum í bakaríinu. Fyrri partur árs er alltaf skemmtilegur tími fyrir bakara landsins en ber þar hæst að nefna okkar stærstu daga eins og bónda- og konudag, Valentínusardag og svo auðvitað þjóðhátíðardaginn sjálfan í bakaríum landsins, bolludaginn,“ segir Gulli Arnar fullur til hlökkunar.
„Við bjóðum ávallt upp á okkar flottu eftirrétti og eru þeir mjög vinsælir á svona sérstökum dögum til að mynda á dögum eins og Valentínusardegi og bóndadegi. Þá koma margir viðskiptavinir sem vilja gleðjast og eiga góða kvöldstund með ástinni sinni.
Konudagurinn er einn af okkar uppáhaldsdögum. Þá fyllist bakaríið af viðskiptavinum sem vilja gleðja konurnar í sínu lífi og kaupa brauð, bakkelsi og konudagstertu,“ segir Gulli Arnar og bætir við að honum þyki fátt skemmtilegra en að skreyta kræsingar fyrir ástina.
„Það sem var vinsælt í fyrra í bakaríinu voru fyrirtækjapakkarnir okkar sem voru mikið pantaðir. Til að mynda fyrir föstudagskaffi hjá fyrirtækjum, svo fátt sé nefnt. Þá pantar viðkomandi einfaldlega fyrir þann fjölda sem starfar á hans vinnustað og við sjáum um rest. Þá skerum við niður brauð og bakkelsi og röðum fallega á bakka. Það eina sem viðkomandi þarf að gera er að sækja bakkana í bakaríið og setja síðan á hátíðarborðið á sínum vinnustað eða þar sem hann ætlar að slá í gegn með kræsingum. Ég mæli með því að allir sem eru að sjá um föstudagskaffið í vinnunni eða annars staðar að senda á mig línu og við græjum þetta,“ segir Gulli Arnar með bros á vör.
„Eftir að hafa gert upp árið í fyrra er ég mjög ánægður og stoltur af vexti bakarísins. Ég er því fullur eldmóðs að halda áfram á nýju ári með spennandi nýjungar, flottar vörur og góða þjónustu.“
Mikið hefur líka verið að gera í einkalífinu hjá Gulla Arnari og fjölskyldan stækkaði á síðasta ári. „Hápunktur ársins var vafalaust í nóvember þegar við Kriste Þórðardóttirl, konan mín, eignuðumst okkar annað barn. Við erum komin með tvo stráka á heimilið, Arnar Inga sem er 21 mánaða og Elmar Inga sem er 2 mánaða. Það er því mjög líflegt á heimilinu núna, mikill gauragangur. Svo erum við auðvitað með Havanese-hundinn, hann Bósa, sem má ekki gleymast,“ segir Gulli Arnar sposkur á svip.
„Eftir að hafa átt mjög notalega stund um jól og áramót með fjölskyldunni þar sem maður fékk að ná andanum og slaka á eftir mikla keyrslu yfir mánuðina á undan eru gengnir, þá kem ég tvíefldur til leiks á nýju ári og er spenntur fyrir komandi verkefnum. Það er gott að komast aftur í rútínu en eftir að hafa lifað á „take away“ mat í nánast tvo mánuði þar sem yngri drengurinn kom í heiminn í miðri jólatörn og rútínuleysi var algjört enda ekki mikið eldað á heimilinu þá.“
Gulli Arnar gaf sér tíma til að setja saman sinn draumavikumatseðil eins og hann langar til að hafa hann þessa vikuna.
Mánudagur – Gratíneraður þorskur
„Ég er að reyna að skapa þá hefð á heimilinu að borða fisk á mánudögum. Ég elska fisk, en hef ekki verið nógu duglegur að elda eða borða hann. Ég er því að reyna að koma því í vana. Það sem er mikilvægast þegar maður er með tvo gaura heima sem þurfa alltaf athygli og eru á mjög svo ólíku þroskastigi er einföld matargerð. Ég er því mjög hrifinn af uppskrift sem þessari þar sem allt er sett í eitt fat og inn í ofn. Lítil vinna, einfaldur frágangur, fljótleg matseld og allir sáttir.“
Þriðjudagur – Grjónagrautur með lifrarpylsu
„Grjónagrautur er í miklu uppáhaldi hjá Arnari Inga syni okkar. Eldamennskan heima snýst núna mikið um að hafa barnvænan mat sem er í uppáhaldi hjá honum. Grjónagrautur er því mikið eldaður á mínu heimili.“
Miðvikudagur – Lasanja með lúxus-ostasósu
„Lasanja klikkar ekki, líklega einn vinsælasti miðvikudagsmatur í sögunni. Ég geri svo hvítlauksbrauð úr súrdeigsbrauðinu úr bakaríinu. Arnar Ingi borðar þetta yfirleitt með öllu andlitinu og svo beint í bað. Aðalkosturinn við þetta er samt án vafa afgangurinn í hádeginu daginn eftir.“
Fimmtudagur – BBQ Taquitos með ranch sósu og ferskum maís
„Kjúklingavefjur er eitthvað sem er einfalt og þægilegt að gera. Það er líka mjög gott að vera með vefjur í boði þegar maður er að taka til í ísskápnum. Grænmeti á síðasta snúning, kjöt, sósur og fleira, allt beint í vefju.“
Föstudagur – Heimagerð pítsa
„Heimagerð pítsa er fullkomin til að njóta á föstudagskvöldi. Hér er mikið sport hjá stóra bróður að setja áleggið á pítsuna. Þetta er því fín afþreying eftir leikskóla, að koma heim og gera pítsu. Þetta er ávallt frekar frjálsleg stund en skemmtileg.“
Laugardagur - Kjúklingaborgari
„Kjúklingaborgarinn slær alltaf í gegn hjá okkur. Eftir að við eignuðumst strákana er líka skemmtilegt að vera með mat sem strákarnir geta hjálpað til við að elda. Arnar Ingi er mjög áhugasamur um eldhúsið, það mun koma síðar hjá Elmari Inga.“
Sunnudagur – Risarækjutaco
„Uppáhaldskvöldin mín þar sem maður slakar á eftir annasama viku. Þar sem bakaríið er lokað á mánudögum hafa sunnudagskvöldin verið frekar heilög hjá mér, þetta eru mín föstudagskvöld ef svo má segja. Hérna höfum við stundum tekið afganga og tiltekt í ísskápnum fyrir drenginn, svæfum strákana og höfum svo eldað „late dinner“ eða eins og við segjum á íslensku, síðbúinn kvöldverð, eftir að allt er komið í ró á heimilinu. Eitt af því sem er í uppáhaldi hjá bæði mér og konu minni, Kristel, er rækju-taco.“