Framhaldsskólakennarar greiða í dag atkvæði um ótímabundin verkföll.
Framhaldsskólakennarar greiða í dag atkvæði um ótímabundin verkföll.
Framhaldsskólakennarar greiða í dag atkvæði um ótímabundin verkföll.
Atkvæðagreiðslan hefst á hádegi og verður niðurstaðan ljós upp úr hádegi á miðvikudag.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Að því gefnu að verkfallsaðgerðirnar verði samþykktar, og samninganefndir ríkis og Kennarasambands Íslands nái ekki saman á næstu dögum, munu kennarar leggja niður störf í framhaldsskólum 21. febrúar.
Guðjón Hreinn vill ekki gefa upp í hvaða framhaldsskólum kennarar greiða atkvæði um verkfall. Þá vill hann heldur ekki gefa upp hversu margir skólarnir séu.
Viðræðunefnd Kennarasambands Íslands fundaði ásamt samninganefndum ríkis og sveitarfélaga í Karphúsinu um helgina um innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í síðustu viku. Felur hún m.a. í sér að jöfnun launa á milli markaða verði leyst með virðismati á störfum kennara.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillöguna en KÍ vildi gera breytingar á ákveðnum skilmálum. Það tókst ekki um helgina og eru nú verkföll í leik- og grunnskólum skollin á.
Í samtali við mbl.is fyrir helgi sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnin stæði að fullu með „virðismatsvegferðinni“. Það væri lykilatriði til að hækka laun og kjör kennara umfram aðrar stéttir.
Guðjón segir KÍ ekki mótfallið virðismatsleiðinni, og hefði verið reiðubúið til að skoða stuttan samning þar sem hefði reynt á hana til jöfnunar launa. Um helgina hefði aftur á móti komið í ljós að enn vantaði upp á skuldbindingu viðsemjenda til launajöfnunar.
Annar fundur hefur ekki verið boðaður enn í Karphúsinu.