Þrjár vélar frá flugfélaginu Play eru nú á leið til Kanaríeyjanna Tenerife, Fuerteventura og Gran Canaria með sólarþyrsta Íslendinga.
Þrjár vélar frá flugfélaginu Play eru nú á leið til Kanaríeyjanna Tenerife, Fuerteventura og Gran Canaria með sólarþyrsta Íslendinga.
Þrjár vélar frá flugfélaginu Play eru nú á leið til Kanaríeyjanna Tenerife, Fuerteventura og Gran Canaria með sólarþyrsta Íslendinga.
Vélarnar munu þá halda aftur til Íslands með aðra, vonandi ánægða ferðalanga í kvöld og áætlað er að þær lendi í Keflavík skömmu eftir miðnætti. Öllum öðrum flugferðum hefur verið aflýst sem koma áttu til Keflavíkur í dag.
Rauðar viðvaranir taka gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og víðar klukkan 16 með sunnan og suðvestan 28 til 33 metrum á sekúndu og staðbundnum hviðum yfir 50 metrum á sekúndu.
Viðvaranirnar verða appelsínugular á ný þegar vind mun lægja samkvæmt veðurspám undir kvöld og verður vindhraði á bilinu 20 til 30 metrar á sekúndu með hviðum yfir 35 metrum á sekúndu við Faxaflóa.
Allar veðurviðvaranir á höfuðborgarsvæðinu falla hins vegar úr gildi á miðnætti og á Faxaflóa klukkustund síðar.
Einhver umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum um þá áætlun Play að fljúga til Keflavíkur í kvöld.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að vélarnar séu á áætlun þar sem veðurspá sýni að það verði byrjað að lægja upp úr miðnætti.
„Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með og upplýsa farþega ef einhverjar breytingar verða sem kunna að raska þessari áætlun,“ segir Birgir.
Brottför frá Keflavík til Tenerife var seinkað í dag vegna veðurs sem leiddi til þess að brottför frá Tenerife var einnig seinkað vegna veðurs. Birgir segir tilkynningar hafa verið sendar á farþega vegna þeirrar seinkunar.
Til að taka af öll tvímæli segir hann enga óvissu með flugið eins og stendur, vélarnar séu einfaldlega á áætlun.