Leigja glæpamenn til skemmdarverka

Rússland | 6. febrúar 2025

Leigja glæpamenn til skemmdarverka

Ekki er örgrannt um að skemmdarverkamenn á vegum Rússa muni beina spjótum sínum að norskum hagsmunum á árinu og séu vopnasendingar og lífsnauðsynlegir innviðir á borð við orkuver og tölvukerfi þar í sérstakri hættu.

Leigja glæpamenn til skemmdarverka

Rússland | 6. febrúar 2025

Norska öryggislögreglan PST hefur gefið út sína árlegu skýrslu um …
Norska öryggislögreglan PST hefur gefið út sína árlegu skýrslu um ógnir ársins í landinu og komu skýrslur leyniþjónustunnar og þjóðaröryggisstofnunar út samdægurs. Ljósmynd/Politiforum.no

Ekki er örgrannt um að skemmdarverkamenn á vegum Rússa muni beina spjótum sínum að norskum hagsmunum á árinu og séu vopnasendingar og lífsnauðsynlegir innviðir á borð við orkuver og tölvukerfi þar í sérstakri hættu.

Ekki er örgrannt um að skemmdarverkamenn á vegum Rússa muni beina spjótum sínum að norskum hagsmunum á árinu og séu vopnasendingar og lífsnauðsynlegir innviðir á borð við orkuver og tölvukerfi þar í sérstakri hættu.

Þetta boðar norska leyniþjónustan í árlegri skýrslu sinni um þær ógnir sem að landinu steðja þrátt fyrir að enn fremur komi fram í skýrslunni að fram til þessa hafi tilraunir til skemmdarverka á þessum vettvangi ekki verið gerðar.

Auk leyniþjónustunnar gáfu öryggislögreglan PST og þjóðaröryggisstofnunin NSM sínar matsskýrslur á sama vettvangi út í gær.

Árvekni almennings þörf

„Árið 2024 áttu 40 skemmdarverkaaðgerðir sér stað í Evrópu sem ýmist var afstýrt eða þær heppnuðust,“ segir Nils Andreas Stensønes yfirmaður leyniþjónustunnar í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bendir enn fremur á að stuðningur Noregs við Úkraínu í innrásarstríði landsins við Rússland geri Noreg að líklegu skotmarki skemmdarverka.

Hefur rússneska sendiráðið í Ósló móttekið fyrirspurn NRK um málið.

Beate Gangås yfirmaður PST leggur á það þunga áherslu að almenningur sé árvökull og tilkynni um það sem hann telji grunsamlega háttsemi. „Við höfum ekki orðið vör við staðfest tilfelli [skemmdarverka] í Noregi enn sem komið er, en við verðum að vera við öllu búin,“ segir Gangås við NRK.

Ekki hlotið sérstaka þjálfun

Kveður Stensønes leyniþjónustustjóri það enn fremur áhyggjuefni að þeir sem skemmdarverkin fremja séu leigðir til þeirrar starfsemi. Séu það gjarnan afbrotamenn sem pantaðir séu til hvers verkefnis gegnum rafræna samskiptamiðla og þiggi greiðslu fyrir hvert verk.

„Háskinn við þetta er að þessir menn hafa ekki hlotið sérstaka þjálfun og þeir lúta mjög lauslegri stjórn sem táknar að verk þeirra geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar,“ segir Stensønes og bætir því við að slík tilfelli séu þekkt, meðal annars frá Bretlandi, Þýskalandi og Póllandi.

Segir hann fjölda íkveikja og annarra skemmdarverka í Evrópu í fyrra að öllum líkindum vera að undirlagi Rússa og miði aðgerðirnar að því að valda ótta og fæla ríki frá frekari stuðningi við Úkraínumenn.

Misst um 600.000 hermenn

Í skýrslum norsku stofnananna þriggja er það gríðarmikla manntjón enn fremur tíundað sem greiningaraðilar þeirra telja Rússa hafa haft af stríðsrekstri sínum í Úkraínu.

„Stríðið hefur kostað minnst 115.000 rússneska hermenn lífið. Séu særðir hermenn, stríðsfangar og þeir sem saknað er teknir inn í myndina hafa Rússar misst meira en 600.000 hermenn í stríðinu,“ segir þar.

„Þetta stríð er Rússum óhemjudýrt, einkum þegar mælt er í mannlegum þjáningum,“ segir Stensønes við NRK. „Þeir hafa misst um það bil 600.000 hermenn, af hverjum 200.000 eru óvígafærir til frambúðar, annaðhvort látnir eða svo skaðaðir að þeir munu ekki eiga afturkvæmt í stríð. Sá kostnaður er gríðarmikill og þá er ekki talað um allan fjármunalega kostnaðinn,“ segir leyniþjónustustjórinn.

NRK

NRK-II (brottvísun sendierindreka 2023)

Nettavisen

Aftenposten

Skýrsla PST

mbl.is