Mikið tjón: Grjót og lausamunir fuku um allt

Veður | 6. febrúar 2025

Mikið tjón: Grjót og lausamunir fuku um allt

Mikið tjón hefur orðið á Stöðvarfirði í veðurofsanum í gærkvöldi, nótt og í morgun. Þakplötur hafa fokið af húsum og meðal annars hvarf þak í heilu lagi af bílskúr.

Mikið tjón: Grjót og lausamunir fuku um allt

Veður | 6. febrúar 2025

Þakplötur fuku af þessu húsi á Stöðvarfirði líkt og mörgum …
Þakplötur fuku af þessu húsi á Stöðvarfirði líkt og mörgum öðrum í látunum. Ljósmynd/Guðgeir Fannar Margeirsson

Mikið tjón hefur orðið á Stöðvarfirði í veðurofsanum í gærkvöldi, nótt og í morgun. Þakplötur hafa fokið af húsum og meðal annars hvarf þak í heilu lagi af bílskúr.

Mikið tjón hefur orðið á Stöðvarfirði í veðurofsanum í gærkvöldi, nótt og í morgun. Þakplötur hafa fokið af húsum og meðal annars hvarf þak í heilu lagi af bílskúr.

Rúður hafa brotnað í húsum í stórum stíl og sömuleiðis í þónokkuð mörgum bílum. Mörg tré eru farin einnig.

Margeir Margeirsson, varðstjóri útstöðvar slökkviliðs Fjarðarbyggðar á Stöðvarfirði, segir í samtali við mbl.is að ofsaveðrið hafi hafist með miklum látum í gærkvöld og gengið hafi á með miklum látum fram eftir nóttinni. Þá hafi húsþök farið og rúður brotnað víða.

Örfáir sinntu verkefnunum

Fimm til sex slökkviliðsmenn á Stöðvarfirði hafa sinnt þeim verkefnum sem upp hafa komið en ekki hefur verið hægt að koma mannskap á milli fjarða sökum veðurofsans.

„Við erum búnir að vera í nótt og í morgun í þessu. Það er svo sem ekkert hægt að gera annað en að taka lausamunina, þakplötur og annað, og reyna að koma því í skjól og fergja því það er ekkert hægt að fara upp á þök í svona veðri,“ segir Margeir.

Segir hann veðrið hafa komið úr öllum áttum í gærkvöld og nótt. „Það eru tveir með svona vindstöðvar heima hjá sér og á öðrum staðnum var mest 57,6 metrar á sekúndu og á hinum í kringum 58 í nótt.“

Hamagangur í smábátahöfninni

Þegar leið á morguninn segir Margeir vindinn hafa staðið meira inn fjörðinn og þvert á hann og þá hafi meira grjót og alls kyns drasl farið á ferðina og fokið á bíla.

Landgangur á smábátahöfninni gaf sig núna skömmu fyrir hádegi og svokallaður fingur sem bátarnir liggja við brotnaði þegar bátur kastaðist upp á hann í einni hviðunni.

„Við vorum að færa bátinn yfir á annan fingur og binda hann þar. Þetta lítur ágætlega út þar núna.“

Margeir segir aðeins lengra á milli hviða núna en að þó komi miklar hviður enn. „Það eru enn að brotna rúður og dót. Við erum að fara að tveimur húsum núna.“

Margeir hefur verið varðstjóri í slökkivliðinu í áratug og segist aldrei hafa upplifað þetta ástand áður.

„Við fengum rosalega slæmt veður um áramótin fyrirr fimm árum en það var miklu skammvinnara. Þá fór skúr og rúður brotnuðu en ekki svona mikið.“

Rúður hafa brotnað í húsum í stórum stíl á Stöðvarfirði …
Rúður hafa brotnað í húsum í stórum stíl á Stöðvarfirði og sömuleiðis í þónokkuð mörgum bílum. Mörg tré eru farin einnig. mbl.is/Golli
mbl.is