Ókeypis nám fyrir fólk sem glímir við geðrænar áskoranir

Dagmál | 6. febrúar 2025

Ókeypis nám fyrir fólk sem glímir við geðrænar áskoranir

Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Bataskólanum, segir meginhlutverk skólans miðast af því að veita einstaklingum sem glíma við geðrænar áskoranir bjargráð til bættrar geðheilsu og aukinna lífsgæða.

Ókeypis nám fyrir fólk sem glímir við geðrænar áskoranir

Dagmál | 6. febrúar 2025

Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Bataskólanum, segir meginhlutverk skólans miðast af því að veita einstaklingum sem glíma við geðrænar áskoranir bjargráð til bættrar geðheilsu og aukinna lífsgæða.

Guðný Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Bataskólanum, segir meginhlutverk skólans miðast af því að veita einstaklingum sem glíma við geðrænar áskoranir bjargráð til bættrar geðheilsu og aukinna lífsgæða.

Víða um heim eru bataskólar starfræktir en allir eiga þeir það sameiginlegt að vinna út frá ákveðinni batahugmyndafræði sem ætlað er að fræða, auka virkni og bæta líðan einstaklingum að kostnaðarlausu. 

Saga Bataskólans hér á landi hófst árið 2017 þegar hann var stofnaður sem tilraunaverkefni á vegum Geðhjálpar og Reykjavíkurborgar. Skólinn hefur starfað óslitið síðan þá og verið mörgum sem fást við andlegar áskoranir stoð og stytta í bataferlinu. 

Námið er kennt yfir sjö mánaða tímabil, eða tímabil sem spannar tvær annir, og er ætlað fullorðnum einstaklingum sem eiga við geðrænan vanda að etja, aðstandendur þeirra og eða fagfólk úr heilbrigðisgeiranum sem vill bæta við sig þekkingu. 

Þörf á frekari geðfræðslu 

Sjálf þekkir Guðný kvíða og þunglyndi vel af eigin raun og hefur reynt að takast á við þær áskoranir frá unga aldri. Hún segir fræðsluna og námið í Bataskólanum hafa opnað fyrir sér nýjar gáttir þrátt fyrir að hún hafi í eiginlegum skilningi ekki stundað námið sjálft heldur einungis setið námskeiðin starfs síns vegna.   

„Það er svo margt þarna sem hefði geta nýst mér sem að ég hef þurft að finna sjálf og fara svolítið lengri leiðina að,“ segir Guðný og kallar eftir aukinni geðfræðslu á meðal almennings.

„Það er vissulega skortur á sálfræðingum og geðlæknum og það þarf náttúrulega að gera eitthvað í því en ég hugsa samt að ef við værum með meiri geðfræðslu almennt þá þyrfti maður ekki að vera alltaf einhvern veginn að finna út úr þessu öllu bara einn og óstuddur stundum,“ lýsir hún.

„Þá er það frekar kannski þannig að þú ferð á eitthvað námskeið eða færð einhverja fræðslu en ef það kemur eitthvað svo í kjölfarið sem þú þarft að ræða eða vinna í þá kannski færirðu til sálfræðings en þetta er oft svolítið mikið á herðum einstaklinga.“

Iðkar þú geðrækt?

Geðrækt er Guðnýju hugleikin og því á starf hennar sérlega vel við hana. Hún segir mikilvægt að einstaklingar á öllum aldri fræðist um geðheilbrigði og iðki geðrækt líkt og líkamsrækt. Enda geti lífið verið margslungið og mörg verkefni að fást við sem geta reynt á geðheilsuna.

„Mig dreymir um að geðrækt verði hluti af grunnskólanum þar sem þú færð bara ákveðna fræðslu vegna þess að við erum öll með geðheilsu. Við þurfum öll að takast á við hugsanir okkar, tilfinningar og samskipti,“ segir Guðný.

„Það er svo margt sem hægt er að fræða fólk um sem það gæti tekið með sér út í lífið.“  

Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Guðnýju í heild sinni. 

mbl.is