Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segist telja líklegt að línur fari að skýrast varðandi myndun nýs meirihluta í borginni á fyrri hluta þessarar viku. Hún segir Viðreisn í samskiptum við alla flokka.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segist telja líklegt að línur fari að skýrast varðandi myndun nýs meirihluta í borginni á fyrri hluta þessarar viku. Hún segir Viðreisn í samskiptum við alla flokka.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segist telja líklegt að línur fari að skýrast varðandi myndun nýs meirihluta í borginni á fyrri hluta þessarar viku. Hún segir Viðreisn í samskiptum við alla flokka.
Meirihlutasamstarf borgarstjórnarinnar sprakk á föstudag og hafa borgarfulltrúar flokkanna varið helginni í samtöl hver við annan um stjórnarsamstarf.
„Við erum bara á sama stað og við vorum svo sem í gær. Allir að tala við alla og ekkert formlegt verið gefið út.
Þangað til við fréttum af því þá er ekkert að gerast þannig séð annað en að það eru náttúrulega miklar þreifingar í gangi,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is
Hún var stödd niðri í ráðhúsi, en þar eru allir borgarfulltrúar enn í sínum formlegu hlutverkum.
„Ég er starfandi forseti þannig ég þarf að undirbúa ýmislegt. Það er borgarstjórnarfundur í næstu viku og það þarf svona að stilla upp hvernig þetta verður allt saman gert.“
Aðspurð segir hún að ef ekki verði kominn meirihluti fyrir þann tíma muni allir borgarfulltrúar hafa heimild til þess að setja mál á dagskrá og geti myndast fjörugar umræður. Hún á þó von á því að meirihluti verði kominn þegar að því kemur.
„Ég er illa svikin ef við förum ekki að heyra af formlegum viðræðum fljótlega. Ég er alveg viss um að við förum að heyra eitthvað fljótlega.“
Segir Þórdís að eftir að „leiftursókn“ Einars Þorsteinssonar borgarstjóra brást, þar sem Flokkur fólksins neitaði að starfa með Sjálfstæðisflokknum, hafi leikurinn í raun opnast.
„Þetta er náttúrulega bara ævintýralega skemmtilegt fyrir fólk sem hefur áhuga á pólitík.“
Hún segir það t.a.m. skemmtilegt „twist“ að Vinstri grænir og Sósíalistar hafi tengt sig saman og myndað bandalag.
„Þá er ekki hægt að toga Líf [Magneudóttur oddvita Vinstri grænna í Reykjavík], eða Vinstri græna, inn á miðjuna af því þær eru búnar að tengja sig saman og eru þá með þrjá borgarfulltrúa.“
Spurð um hvort Viðreisn hefði áhuga á að vera hluti af stjórnarsamstarfi sem myndi innihalda það bandalag segist Þórdís hafa verið mjög skýr um að hún hafi átt í samtölum við alla flokka.
„Það er mín skylda. En það er náttúrulega ólíklegra að hægri-miðjuflokkurinn Viðreisn fari að vinna með Sósíalistum beint. Það er ólíklegt.“
Hún nefnir að alls kyns útilokandi þættir hafi komið fram á síðustu dögum, t.a.m. hafi sumir flokkar útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og þá einnig Framsóknarflokkinn en Þórdís segir að enn séu mörg tækifæri eftir á borðinu og nefnir t.d. starfsstjórn.
„[...] sem er svona hálfgerð þjóðstjórn þar sem við vinnum bara öll saman og þá er það verkefnið að klára þetta kjörtímabil og sammælast um einhverja stjórn borgarinnar á meðan. Þá eru bara hlutirnir á bið.“
Áttu von á einhverjum stórum tíðindum í dag?
„Ég yrði ekkert hissa en ég myndi svona skjóta á að í dag eða á morgun eða á miðvikudaginn förum við að fá einhver tíðindi.“
Segir Þórdís oddvita flokkanna hafa nýtt helgina í að tala við sín baklönd og meta aðstæður.
„Núna byrja svona alvöru þreifingar.“