Hafa rænt fleiri en tuttugu þúsund börnum

Úkraína | 25. mars 2025

Hafa rænt fleiri en tuttugu þúsund börnum

Daglegar árásir Rússa á saklausa borgara Úkraínu sýna að markmið þeirra hefur ekki breyst frá því þeir réðust af fullu afli inn í landið fyrir rúmum þremur árum. Þar hafa þeir framið glæpi gegn mannkyninu og úrslit stríðsins munu hafa margt að segja um öryggi annarra lýðræðisríkja.

Hafa rænt fleiri en tuttugu þúsund börnum

Úkraína | 25. mars 2025

Þar sem áður spratt gras, í borginni Poltava, liggur nú …
Þar sem áður spratt gras, í borginni Poltava, liggur nú leikfang barns einmana í gróðursnauðum jarðvegi eftir loftárás Rússa. Þeir myrtu fjórtán í árásinni, þar af þrjú börn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dag­leg­ar árás­ir Rússa á sak­lausa borg­ara Úkraínu sýna að mark­mið þeirra hef­ur ekki breyst frá því þeir réðust af fullu afli inn í landið fyr­ir rúm­um þrem­ur árum. Þar hafa þeir framið glæpi gegn mann­kyn­inu og úr­slit stríðsins munu hafa margt að segja um ör­yggi annarra lýðræðis­ríkja.

Dag­leg­ar árás­ir Rússa á sak­lausa borg­ara Úkraínu sýna að mark­mið þeirra hef­ur ekki breyst frá því þeir réðust af fullu afli inn í landið fyr­ir rúm­um þrem­ur árum. Þar hafa þeir framið glæpi gegn mann­kyn­inu og úr­slit stríðsins munu hafa margt að segja um ör­yggi annarra lýðræðis­ríkja.

Þetta seg­ir Marí­ana Betsa, aðstoðar­ut­an­rík­is­ráðherra Úkraínu.

Blaðamaður átti við hana fund ásamt fleir­um í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu í Kænug­arði í liðinni viku, en síðdeg­is dag­inn áður höfðu Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti og Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti ræðst við sím­leiðis.

Í Kreml hafði tól­inu þó vart verið skellt á sím­tækið áður en haf­in voru á loft á annað hundrað vél­fygla, hlaðin sprengj­um, til að ráðast á borg­ir Úkraínu.

Þá um nótt­ina dundu árás­ir Rússa á borg­inni svo að at­hygli vakti á Íslandi, enda lít­ill hóp­ur ís­lenskra blaðamanna þar úti.

Maríana Betsa við fundarborðið ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Marí­ana Betsa við fund­ar­borðið ásamt aðstoðarmönn­um sín­um. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Vilja leggja Úkraínu í rúst

Árás­ir sem þess­ar þykja dag­legt brauð nú á fjórða ári stríðsins. Ráðherr­ann tók þó fram að nótt­in hefði verið erfið fyr­ir þjóðina. Kannski því að sum­ir höfðu borið von í brjósti um að sím­tal leiðtog­anna skilaði ein­hverj­um ár­angri.

„Þetta er raun­veru­leik­inn dag­lega, því miður. Og þetta var aft­ur til marks um að mark­mið Rússa hef­ur ekki breyst,“ sagði ráðherr­ann.

„Þeir vilja leggja landið í rúst og tor­tíma Úkraínu sem þjóð.“

Eng­in merki væru enn sjá­an­leg frá Rúss­um um að þeir vildu binda enda á stríðið.

„Okk­ar afstaða er mjög skýr. Eng­ar mála­miðlan­ir um landsvæði. Ekk­ert um Úkraínu án Úkraínu. Eng­inn ætti að fá að ákveða hvort Úkraína geti gengið til nokk­urs banda­lags. Eng­ar tak­mark­an­ir á getu Úkraínu til að verja sig. Svo ein­falt er það.“

„Vilj­um frið meira en nokk­ur ann­ar“

Marí­ana bend­ir á að Úkraína hafi ít­rekað látið í ljós vilja til að koma á friði. Til að mynda féllust úkraínsk yf­ir­völd á til­lögu Banda­ríkj­anna um al­gjört vopna­hlé í þrjá­tíu daga. Þeirri til­lögu hafnaði Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti.

„Við vilj­um frið meira en nokk­ur ann­ar. En það ætti að vera rétt­lát­ur friður. Því að Rúss­land frem­ur þjóðarmorð, glæpi gegn mann­kyn­inu og stríðsglæpi á iðnaðarskala, gegn Úkraínu og Úkraínu­mönn­um.“

Málið snú­ist einnig um rétt­læti fyr­ir úkraínsku þjóðina.

„Það eru svo marg­ir staðir og borg­ir sem Rúss­ar gjör­eyðilögðu. Maríu­pol, Bak­hmút, Avdív­ka og fjöldi annarra. Bara tor­tímt al­gjör­lega,“ seg­ir Marí­ana.

„Það sem Rúss­ar gerðu við Maríu­pol, það vilja þeir gera við alla Úkraínu. Að eyða henni út af kort­inu, ef þeir geta ekki sett hana und­ir hæl sinn. Og það geta þeir ekki.“

Úkraínskur hermaður, sem Rússar drápu fyrr í mánuðinum, fékk útför …
Úkraínsk­ur hermaður, sem Rúss­ar drápu fyrr í mánuðinum, fékk út­för við Sjálf­stæðis­torgið í Kænug­arði. Talið er að tug­ir þúsunda hafi verið drepn­ir þeim meg­in víg­lín­unn­ar. AFP

Verja þegar aust­ur­hlið banda­lags­ins

Ef koma eigi á friði þá þurfi hann einnig að vera til fram­búðar.

„Með áreiðan­leg­um trygg­ing­um. Besta ör­ygg­is­trygg­ing­in er aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Við sjá­um það mjög skýrt. Fyr­ir okk­ur væri aðild að NATO skil­virk­asta leiðin.“

Bæt­ir hún við að í aug­um Úkraínu­manna séu þeir nú þegar að verja aust­ur­hlið banda­lags­ins.

„Aðild að banda­lag­inu er á dag­skrá. Þrátt fyr­ir að við vit­um að í sum­um ríkj­um séu mis­mun­andi viðhorf, þá er hún á dag­skrá.“

Hvað varðar aðrar ör­ygg­is­trygg­ing­ar, áður en komið er að mögu­legri NATO-aðild, nefn­ir hún að aðsend herlið yrðu Úkraínu mjög mik­il­væg.

„Til að verja ör­yggi þjóðar­inn­ar, hvort sem er í lofti, á láði eða á legi. En auðvitað þurf­um við að hafa skýr­an skiln­ing um þær ör­ygg­is­trygg­ing­ar sem Úkraínu eru fengn­ar, áður en Úkraína geng­ur í NATO.“

Skelfi­leg­ar aðstæður

Hún ít­rek­ar að stríðið hafi haft hræðileg­ar af­leiðing­ar og að aðstæður á jörðu niðri séu skelfi­leg­ar.

„Úkraína er til­bú­in að gera það sem þarf, en við höf­um ekki séð nein merki frá Rúss­um um að þeir vilji eiga sam­skipti á ein­hverju stigi og hætta þess­um árás­um,“ seg­ir hún.

„Þeir hefðu getað gert það fyr­ir löngu. Þeir hefðu getað gert það árið 2014, eða árið 2022, eða árið 2024. Eða bara í dag, þá gætu þeir hörfað burt úr land­inu okk­ar. En það væri ekki nóg, því við vilj­um rétt­læti og við vilj­um ábyrgð.“

Hvað finnst þér um þau skil­yrði sem Pútín setti fyr­ir vopna­hléi þegar til­laga Banda­ríkja­manna var bor­in und­ir hann?

„Þau eru enn einn vitn­is­b­urður­inn um að Rúss­land set­ur skil­yrði við allt. Við samþykkt­um vopna­hlé sam­kvæmt til­lögu Banda­ríkj­anna, án nokk­urra skil­yrða,“ seg­ir Marí­ana.

„Þetta er leik­ur­inn sem Rúss­land er að spila og sýn­ir aft­ur að þeim er ekki al­vara með þess­um viðræðum.“

Við Sjálfstæðistorgið í Kænugarði stendur ótrúlegur fjöldi þjóðfána Úkraínu, svo …
Við Sjálf­stæðis­torgið í Kænug­arði stend­ur ótrú­leg­ur fjöldi þjóðfána Úkraínu, svo marg­ir að óger­legt er að telja þá. Hvern og einn þeirra hef­ur fólk sett niður til minn­ing­ar um ást­vin sem lát­ist hef­ur sök­um inn­rás­ar­stríðs Rússa, sem hófst fyr­ir rúm­um þrem­ur árum. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Kreml seg­ist fall­ast á vopna­hlé um orku­innviði

Þess ber hér að geta að frá Kreml barst sú til­kynn­ing í kvöld, að Banda­rík­in og Rúss­land hefðu samþykkt að 30 daga vopna­hlé um orku­innviði gilti um raf­stöðvar, leiðslur og olíu­hreins­istöðvar.

Raf­magns­fram­leiðsla og dreifi­kerfi nær einnig und­ir skil­mála vopna­hlés­ins, að sögn Kreml­ar.

Pútín til­kynnti vopna­hléið í síðustu viku en Rúss­ar höfðu til þessa ekk­ert gefið upp um nán­ari skil­grein­ing­ar.

Stjórn­völd í Kænug­arði hafa aft­ur á móti sakað Rússa um að brjóta ít­rekað gegn því, meira að segja strax nótt­ina eft­ir yf­ir­lýs­ingu Pútíns.

Vilja gera lífið óbæri­legt

En inn­an Kreml­ar virðist samt sem mönn­um hugn­ist ef til vill mest vopna­hlé af þessu tagi, það er varðandi orku­innviði.

Spurð út í þetta nefn­ir Marí­ana að Rúss­ar hafi ein­mitt fyr­ir um hálfu ári hert til muna slík­ar árás­ir gegn Úkraínu.

„Til að gera líf okk­ar nán­ast óbæri­legt. Rúss­land vill gera Úkraínu­mönn­um lífið svo leitt að þeir neyðist til að flýja landið, sér­stak­lega á vet­urna. En úkraínska þjóðin er staðföst.“

Árásir Rússa úr lofti eru daglegt brauð fyrir þá sem …
Árás­ir Rússa úr lofti eru dag­legt brauð fyr­ir þá sem búa í borg­um Úkraínu. Minna fer fyr­ir þeim í dags­birtu og mann­lífið er eft­ir því. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Sam­komu­lag um Svarta­haf en Rúss­ar setja skil­yrði

Við þetta bætt­ist einnig í kvöld, frá Hvíta hús­inu, til­kynn­ing um að Rúss­land og Úkraína hefðu hvort um sig samþykkt að hætta hernaði á Svarta­hafi.

Ekki leið þó á löngu áður en frá Kreml barst skeyti um að slíkt sam­komu­lag tæki aðeins gildi þegar búið væri að létta ákveðnum efna­hagsþving­un­um af Rússlandi.

Setja Rúss­ar sem skil­yrði aflétt­ingu hafta sem sett voru á land­búnaðarbanka rúss­neska rík­is­ins og aðrar fjár­mála­stofn­an­ir tengd­ar alþjóðaviðskipt­um með mat­væli og áburð.

Kalla þeir einnig eft­ir því að sömu stofn­an­ir fái á ný teng­ingu við alþjóðlega SWIFT-greiðslu­kerfið.

Ara­grúi sönn­un­ar­gagna um glæpi Rúss­lands

Marí­ana viður­kenn­ir að það geti verið erfitt fyr­ir fólk í öðrum lönd­um að skilja ástandið í Úkraínu, þar sem það upp­lifi ekki stríðið og af­leiðing­ar þess á eig­in skinni.

„En við búum í nú­tíma­heimi þar sem er ara­grúi sönn­un­ar­gagna um hvað Rúss­land er búið að gera í fjölda ára, ekki aðeins í Úkraínu,“ seg­ir hún og nefn­ir Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rúss­land sem dæmi um fórn­ar­lömb Rússa.

„Það sem ég get helst mælt með er að koma til Úkraínu. Heim­sækja landið okk­ar. Dvelja hér nokkra daga. Þið munið sjá fal­legt land, fal­lega þjóð, en á sama tíma þann grimma raun­veru­leika sem við búum við alla daga og all­ar næt­ur. Þetta er öm­ur­legt.“

Á milli þess sem rætt var við Maríönu og þetta ritað náðu Rúss­ar að drepa enn fleiri sak­lausa borg­ara með skeyt­ing­ar­laus­um sprengju­árás­um sín­um.

Börn á leið inn í kennslustofu í skóla neðanjarðar í …
Börn á leið inn í kennslu­stofu í skóla neðanj­arðar í úkraínsku borg­inni Sa­porisjíu. AFP

Svo mörg börn sem hafa ekki leng­ur for­eldra

Til dæm­is um breytt­an og verri veru­leika nefn­ir ráðherr­ann að skól­um sé nú skylt að vera með sprengju­byrgi og að reglu­lega þurfi að gera langt hlé á skóla­starfi víða í land­inu, þar sem börn­um er skipað í skjól á meðan úti óma loft­varnaflaut­ur.

Fleiri en sex millj­ón­ir Úkraínu­manna hafa flúið landið vegna inn­rás­ar­stríðs Rússa. Hátt í fjór­ar millj­ón­ir manna eru svo á ver­gangi í sjálfu land­inu af sömu sök­um.

„Þetta er eitt­hvað sem við vilj­um vinna í. Sér­stak­lega varðandi þá sem eru utan lands­ins, við vilj­um fá þá til baka því þeir eru hluti af þjóðinni okk­ar. En þetta er ekki auðvelt á meðan við búum enn við óör­yggi.

Það eru svo mörg börn sem hafa ekki leng­ur neina for­eldra. Það eru svo marg­ir for­eldr­ar sem misst hafa börn­in sín. Fjöldi barna hef­ur misst út­limi og þá hafa mörg börn verið flutt á brott með valdi, þvert á Genfarsátt­mál­ann og alþjóðalög, til bú­setu í Rússlandi,“ seg­ir Marí­ana.

„Þau telja fleiri en tutt­ugu þúsund. Það er enn ann­ar harm­leik­ur. Það sem Rúss­ar reyna að gera þeim, sér­stak­lega þeim sem misst hafa for­eldra sína, er að afmá alla sjálfs­vit­und þeirra. Gefa þeim önn­ur nöfn, mennta þau á rúss­nesku og dæla í þau áróðri.“

Við dómkirkju heilags Mikaels í Kænugarði stendur veggur alsettur þúsundum …
Við dóm­kirkju heil­ags Mika­els í Kænug­arði stend­ur vegg­ur al­sett­ur þúsund­um mynda af úkraínsk­um her­mönn­um, sem fallið hafa fyr­ir hendi Rússa í inn­rás­ar­stríði þeirra. Langt er síðan ekk­ert tóm var leng­ur eft­ir fyr­ir nýj­ar mynd­ir. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Bar­átta lýðræðis og ein­ræðis

Hún seg­ir þetta enn einn þátt­inn í svo­kölluðu fjölþátta­stríði sem Rúss­ar há, ekki aðeins gegn Úkraínu og Evr­ópu held­ur gegn alþjóðasam­fé­lag­inu.

„Því að lykt­ir þessa stríðs munu hafa áhrif á stöðu lýðræðis í heim­in­um. Þær munu segja til um ör­yggi Evr­ópu og ör­yggi lýðræðis­ríkja.

Vegna þess að ein­mitt núna er þetta bar­átta lýðræðis og ein­ræðis. Lýðræðis­stjórn­ar og alræðis­stjórn­ar. Þátt­taka Írans og Norður-Kór­eu í stríðinu und­ir­strik­ar þetta og gef­ur átök­un­um enn aðra vídd,“ seg­ir Marí­ana.

„Sú staðreynd að norðurkór­esk­ir her­menn eru að berj­ast í Úkraínu – ein og sér – sýn­ir að stríðið verður einnig af­drifa­ríkt fyr­ir rík­in við Ind­lands- og Kyrra­haf,“ bæt­ir hún við.

„Það er orðið ljóst að ör­yggi Úkraínu, Evr­ópu og allra lýðræðis­ríkja er nú sam­tvinnað.“

Í þessu sam­bandi má nefna að stjórn­völd í alræðis­rík­inu Kína hafa ekki farið leynt með áætlan­ir sín­ar um inn­rás í lýðræðis­ríkið Taív­an, skammt und­an strönd­um þess. Telja má lík­legt að for­set­inn Xi Jin­ping horfi til þró­un­ar mála í Úkraínu, og viðbragða vest­rænna ríkja, þegar hann met­ur hvort eða hvenær sé rétt að ráðast til at­lögu.

Maríana Betsa ásamt Friðriki Jónssyni, sem er sendiherra Íslands gagnvart …
Marí­ana Betsa ásamt Friðriki Jóns­syni, sem er sendi­herra Íslands gagn­vart Úkraínu með aðset­ur í Var­sjá. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Rúss­ar vilja tvístra og sundra

Að lok­um er Marí­ana spurð út í viðræður um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, sem að sinni virðist öllu raun­hæf­ari en aðild að NATO.

Í ljósi þess að tvö ríki sam­bands­ins hafa sett sig upp á móti aðild Úkraínu, eða reynt að leggja stein í götu ykk­ar, hversu bjart­sýn ertu á aðild að því virtu að hún krefst ein­róma samþykk­is sam­bands­ríkja?

„Það er ein­mitt mjög mik­il­vægt að það sé ein­róma samþykki, að það sé samstaða. Því að það sem Rúss­land vill gera er að tvístra ríkj­um inn­an sam­bands­ins og leysa upp ein­ing­una sem þar rík­ir, og einnig yfir Atlants­hafið.

Við erum að vinna með þess­um tveim­ur ríkj­um, við erum að vinna með ná­grönn­um okk­ar. Sam­bandið við þá er kannski ekki auðvelt en það er mik­il­vægt. Við erum að reyna að fá þá til að styðja Úkraínu.“

Hún tek­ur fram að Úkraínu­menn kunni mjög að meta stuðning Íslands, sem hef­ur verið með marg­vís­leg­um hætti eins og greint var frá fyrr í mánuðinum.

For­dæma­laus­ar end­ur­bæt­ur

Spurð út í end­ur­bæt­ur á stjórn­kerf­inu vegna aðild­ar­viðræðna, þar á meðal til að sporna gegn spill­ingu, seg­ir hún það for­dæma­laust hve langt stjórn­völd lands­ins hafi gengið til að mæta end­ur­bóta­kröfu Evr­ópu­sam­bands­ins.

„Ekki síst í ljósi þess að á sama tíma höf­um við verið að berj­ast við Rúss­land. Á okk­ur falla sprengj­ur alla daga. Við erum bók­staf­lega að há bar­áttu til að lifa af. Og við ætl­um samt að binda enda á spill­ingu, herða lög og reglu, styrkja dóms­kerfið.

Þetta er ekki auðvelt á stund­um. En þetta er eitt skil­yrða fyr­ir inn­göngu í sam­bandið og okk­ur miðar mjög vel.“

mbl.is