Judy Buenoano sem nefnd hefur verið „svarta ekkjan" var tekin af lífi í rafmagnsstól í Flórída í dag. Hún er fyrsta konan sem tekin er af lífi í fylkinu síðan á tímum þrælahalds.
Buenoano var tekin af lífi kl. 12:13 að íslenskum tíma en í gær hafnaði hæstiréttur Flórída beiðni um að lífi hennar yrði þyrmt. Talsmaður réttarins sagði að engin haldgóð rök hefðu fengist fyrir því að breyta refsingunni. Buenoano, sem var 54 ára, hafði fjölda morða á samviskunni en var þó ekki dæmd fyrir þau öll þar sem hún hafði hlotið líflátsdóm er a.m.k. eitt morð til viðbótar sannaðist á hana. Buenoano var dæmd fyrir að myrða 19 ára fatlaðan son sinn, sem hún hrinti út úr húðkeip og horfði á hann sökkva með 25 kílóa járnkeðjur um fæturnar árið 1980. Að verknaðinum loknum fékk hún greidda 125.000 dollara líftryggingu hans. Níu árum áður tók hún móti eiginmanni sínum við heimkomuna frá Víetnam og blandaði arseniki í matinn hans uns hann dó af völdum eitrunarinnar. Fékk hún 85.000 dollara úr líftryggingu hans. Þá reyndist hún hafa byrlað ástmanni, sem dó 1978, eitur og haft fé út úr tryggingum fyrir andlát hans. Hún hlaut ekki dóm fyrir það morð er upp komst, þar sem hún hafði þegar verið dæmd til lífláts fyrir að bana syni sínum og eiginmanni. Upp komst um Buenoano er hún reyndi að sprengja annan ástmann sinn í loft upp árið 1983 til að geta fengið líftryggingu, sem hún hafði keypt í hans nafni, borgaða út. Sá skýrði lögreglu frá vítamínpillum sem hún hafði borið í hann en þær reyndust einungis hafa dregið úr honum mátt. Við rannsókn kom í ljós að hann var haldinn arsenikeitrun á háu stigi. Úr þessu getur einungis Lawton Chiles, ríkisstjóri Flórída, afstýrt aftöku Buenoano, sem annars verður spennt niður í rafmagnsstól og líflátin í Tallahassee í Flórída í dag klukkan 12:01 að íslenskum tíma.