Höfðu skipulagt árásina í Columbine-skólanum í eitt ár

Illvirkið í Columbine-menntaskólanum í Littleton í Colorado á fæðingardegi Adolfs Hitlers hafði verið undirbúið í heilt ár, en fram kemur í ítarlegum dagbókarfærslum annars piltanna, sem morðin frömdu, að "stórslátrun" yrði framkvæmd í sjálfsmorðsárás.

„Staðreyndin er sú að þeir ætluðu sér að vinna sem mesta eyðileggingu sem unnt væri, eyðileggja skólabygginguna og taka líf sem flestra barna og deyja svo í eldunum," sagði John Stone, sýslumaður í Jeffersonsýslu. Tólf nemendur skólans og einn kennari féllu fyrir hendi tveggja pilta, sem einnig voru nemendur við skólann, í sjálfsmorð árás þeirra sl. þriðjudag. Dagbókin fannst á heimili annars þeirra og þar er undirbúningi árásarinnar lýst allt að eitt ár aftur í tímann. Þar er að finna ýmiss konar slagorð á þýsku. Óljóst er hvort hún fannst á heimili Dylans Klebolds eða Eric Harris. Á heimilinu fannst einnig byssuhlaup og tæki og tól til sprengjugerðar og vandaði því Stone sýslumaður foreldrunum ekki kveðjurnar. „Þessir hlutir voru þar á glámbekk og foreldrarnir hefðu átt að vita hvað var á ferðinni. Foreldrar eiga að bera ábyrgð á gerðum barna sinna," sagði hann. Í dagbókinni er kort af skólanum og merkt svæði þar sem lýsing er takmörkuð og nefndir hugsanlegir felustaðir. Sömuleiðis hafa piltarnir haldið uppi njósnum um hvenær dags mest af fólki væri í matsal skólans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert