Harður jarðskjálfti varð á Taívan, nálægt höfuðborginni Taípei í kvöld. Talið er að skjálftinn hafi mælst 7,6 stig á Richter og fór rafmagn af borginni og símasamband slitnaði. Fjölmiðlar sögðu að hluti af 12 hæða hóteli hefði hrunið í Taípei og að hús hefðu hrunið í Chang Hua fylki á miðri eynni. Að minnsta kosti þrír hefðu slasast og 10 manns væru undir brakinu.
Varað hefur verið við hugsanlegri flóðbylgju í kjölfarið á Taívan, í Japan, Guam og Palau. Sex eftirskjálftar komu á eftir stóra skjálftanum. Sírenur vældu í Taípei, þar sem um 2,6 milljónir manna búa, en engin skelfing ríkti á götum úti.