Óttast að óeðlileg keðjuverkun hafi farið af stað í kjarnorkuveri í Japan

Endurvinnslustöðin fyrir úran þar sem slysið varð í morgun þegar …
Endurvinnslustöðin fyrir úran þar sem slysið varð í morgun þegar starfsmenn versins voru að blanda saman úrani og nítursýru til að framleiða brennsluefni fyrir kjarnorkuver. AP

Óttast er að afleiðingar mistaka starfsmanna kjarnorkuvers í Japan í morgun verði alvarlegri en talið var og öflug keðjuverkun kunni að vera í uppsiglingu. Þrír starfsmenn versins voru fluttir á sjúkrahús og 11 til viðbótar urðu fyrir geislun. Þá hafa um 150 manns sem búa í nágrenninu verið flutt á brott en alls búa 310 þúsund manns í 10 km radíus frá verinu.

Japanska ríkisstjórnin óskaði eftir aðstoð bandarískra hermanna í búðum á Japan en þeirri beiðni var hafnað á þeirri forsendu að bandarísku hermennirnir hefðu ekki yfir að ráða tækni til að fást við slys af þessu tagi. Geislavirkni er enn mikil umhverfis verið en hún varð mest í morgun 10 þúsund sinnum meiri en eðlilegt má teljast. Geislunin, eins og hún er nú er þó ekki talin vera umtalsverð ógn fyrir umhverfið nema keðjuverkun vari í langan tíma.Mikið hefur verið óhöpp í tengslum við kjarnorkuiðnaðinn í Japan en um þriðjungur raforku landsins er framleiddur í kjarnorkuverum. Þetta slys er þó það versta sem orðið hefur í landinu og er það talið geta haft gífurlegar afleiðingar í för með sér fyrir kjarnorkuiðnaðinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert