Forsvarsmenn Brooklyn-safnsins í New York standa nú í harðvítugum deilum við borgaryfirvöld vegna sýningar sem safnið hefur í undirbúningi.
Joseph Lhota aðstoðarborgarstjóri og Michael Hass, lögfræðingur borgarinnar, sökuðu safnið um það í gær að halda sýningu á umdeildum listaverkum til þess eins að auka verðgildi þeirra á yfirvofandi uppboði. Listaverkin sem um ræðir eru úr safni Bretans Charles Saatchis en hann er sagður hafa selt 128 verk á uppboði eftir að sýning var haldin á þeim í London. Uppboðsfyrirtækið Christie´s, sem tekur þátt í fjármögnun sýningarinnar, segir hins vegar engin áform uppi um það að verkin verði boðin upp. Rudolph Giuliani, borgarstjóri New York-borgar, hefur hótað að frysta öll fjárframlög til safnsins hverfi það ekki frá þeirri áætlun sinni um að sýna mynd Chris Ofilis, „Holy Virgin Mary" (Heilög María mey), á sýningunni sem verður opnuð á sunnudag. Þá hefur öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkt ályktun þar sem stuðningi er lýst við aðgerðir borgaryfirvalda. Forsvarsmenn safnsins hafa hins vegar farið fram á lögbann á aðgerðir borgaryfirvalda sem þau segja brot á stjórnarskránni. Þá hafa fulltrúar annarra listasafna í borginni og fjölmargir listamenn lýst stuðningi við safnið. Hillary Rodham Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna, sem sækist eftir sæti fulltrúa borgarinnar í öldungadeildinni, hefur sagt að hún telji safnið hafa fullan rétt til að sýna verkið þótt henni geðjist ekki að þeirri hugmynd sem það byggist á. Hið umdeilda verk Ofilis sýnir svarta Maríu mey umkringda fílamykju og úrklippum úr klámblöðum. Meðal annarra umdeildra verka á sýningunni er stytta gerð úr frosnu blóði.