Írak, Algería og Líbýa andsnúin framleiðsluaukningu á olíu

Olíumálaráðuneyti Írans lýsti því yfir í dag að stjórnvöld í Íran, Algeríu og Líbýu væru andsnúin því að OPEC-ríkin ykju olíuframleiðslu sína á ný til þess að koma í veg fyrir frekari hækkanir á heimsmarkaðsverði olíu. Í kjölfar yfirlýsingarinnar hækkaði olíuverð á mörkuðum í dag og sló níu ára met sem var sett í síðustu viku en þá hafði það ekki verið hærra síðan í Persaflóastríðinu.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið hækkandi síðan í apríl á síðasta ári en þá tilkynntu OPEC-ríkin að þau ætluðu að draga úr framleiðslu sinni. Ráðamenn á Vesturlöndum hafa verið vongóðir um að OPEC-ríkin taki ákvörðun um að auka aftur framleiðslu á fundi ríkjanna í Vín í Austurríki þann 27. mars en líkurnar á því fara minnkandi. Aðildarríki OPEC hafa lýst því yfir að allar ákvarðanir um aukna framleiðslu verða að hljóta einróma samþykki á fundi samtakanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert