Herstjórnin í Pakistan lagði í dag bann við hvers konar pólitískum samkomum, verkföllum og fjöldagöngum. Tekur bannið gildi þegar í stað og hefur héraðsstjórnum í landinu verið skipað að framfylgja banninu með harðri hendi. Þessi tilskipun er birt fimm mánuðum eftir að Pervez Musharraf hershöfðingi steypti Nawaz Sharif forsætisráðherra af stóli og lýsti yfir neyðarástandi. Sharif er nú í fangelsi og á yfir höfði sér réttarhöld vegna ákæru um morðtilraun, mannrán, flugrán og hryðjuverk.