Óttast að 650 hafi beðið bana í fjöldasjálfsmorðinu í Úganda

Óhrjálegt var um að litast í kirkju sértrúarsafnaðarins er eldurinn …
Óhrjálegt var um að litast í kirkju sértrúarsafnaðarins er eldurinn hafði slokknað. Talið er að erfitt verði að bera kennsl á lík þeirra sem dóu sakir þess hve illa leikin þau voru eftir bálið. AP

Að minnsta kosti 235 manns létu lífið í fjöldasjálfsmorði sértrúarsafnaðarins „Tíu boðorð Guðs" í Úganda en óttast er að talan eigi enn eftir að hækka, í allt að 650, að sögn úgandísku lögreglunnar. Sjónarvottar segja að kirkja safnaðarins hafi fuðrað upp í báli og hafi skaðræðisóp þeirra sem voru innandyra þagnað tiltölulega fljótt eftir að eldurinn blossaði upp.

Hermt er að safnaðarmenn hafi sungið trúarsöngva og kennisetningar í kirkju sinni í nokkrar klukkustundir áður en útgönguleiðum var læst og eldur síðan borinn að húsinu árla á föstudag. Leiðtogar safnaðarins höfðu boðað að dómsdagur rynni upp í ár. Atburðirnir áttu sér stað í þorpinu Kanungu í suðvesturodda Úganda, um 320 km frá höfuðborginni Kampala. Sjónarvottar segjast hafa heyrt öskur og hróp eftir að eldur blossaði upp í kirkjunni en skaðræðisópin hafi dáið út tiltölulega hratt. Segja þeir sömuleiðis að mikinn bensínfnyk hafi lagt frá kirkjunni um það leyti sem bálið blossaði upp í henni. Að undanförnu höfðu leiðtogar safnaðarins ennfremur sagt safnaðarfólki að selja eigur sínar og undirbúa himnaför. Þorpsbúar segja að konur og menn hafi skrýðst hvítum, grænum og svörtum kuflum og streymt til kirkjunnar ásamt börnum sínum eftir að hafa slátrað nautgripum sínum og haldið trúarhátíð í um vikutíma. Lögreglan fer með málið bæði sem sjálfsmorð en einnig sem morðmál þar sem fjöldi barna kom við sögu. Óljóst er hvort safnaðarstjórinn Joseph Kibweteere beið bana í eldinum. Hann hafði spáð því að ragnarök yrði 31. desember sl. og allt líf deyja á jörðinni en er það gekk ekki eftir sagði hann að sér hefði skjátlast við útreikninginn og dómsdagur yrði í lok 2000 í staðinn. Fjöldasjálfsmorðið í Úganda er talið vera hið fjölmennasta frá því 912 liðsmenn Musterisfylkingarinnar, undir forystu Jim Jones, létust 1978 í Guyana í Suður-Ameríku eftir að hafa drukkið eitur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert