Vladímír Pútín var kjörinn forseti Rússlands í gær til næstu fjögurra ára. Þegar búið var að telja 94% atkvæðanna í morgun hafði Pútín fengið 52,5% atkvæða og því kemur ekki til annarrar umferðar. Gennadí Zjúganov var með 29,45 og Grígorí Javlinskí 7% en aðrir höfðu minna. Pútín, sem verið hefur starfandi forseti frá því um áramót, mun taka formlega við embætti í maí og þá verður einnig skipuð ný ríkisstjórn Rússlands en Pútín hefur einnig gegnt embætti forsætisráðherra.
Haft var eftir Ígor Ívanov utanríkisráðherra Rússlands í morgun, að breytingar yrðu gerðar á utanríkisstefnu Rússlands og þær breytingar myndu endurspegla þær miklu breytingar sem orðið hefðu á skipan heimsmála.