Kviðdómur í San Francisco í Bandaríkjunum dæmdi tvö stærstu tóbaksfyrirtæki landsins, Philip Morris og R.J. Reynolds, til að greiða konu, sem liggur fyrir dauðanum, og eiginmanni hennar 20 milljónir dollara, um 1500 milljónir króna, í miskabætur. Þetta er fyrsti dómur sem fellur í skaðabótamáli reykingamanns sem byrjaði að reykja eftir 1969 en þá var fyrst farið að setja viðvaranir á sígarettupakka.
Hjónin kröfðist 115 milljóna dollara bóta og sögðu að sú upphæð jafngilti 1% af markaðsvirði fyrirtækjanna tveggja. Lögmaður sagði að tóbaksfyrirtækin iðruðust einskis þótt þau hefðu valdið fjölda fólks tjóni. Lögmenn Philip Morris og R.J. Reynolds vildu fallast á að greiða 3,4-5,1 milljóna dollara bætur. Þeir sögðu að tóbaksfyrirtækin vissu vel hvað til þeirra friðar heyrði og vísuðu í samkomulag sem tóbaksframleiðendur gerðu árið 1998 við 46 ríki Bandaríkjanna en þau höfðuðu mál vegna heilbrigðiskostnaðar sem sjúkdómar af völdum reykinga hefðu í för með sér. Bandarískir kviðdómar hafa fimm sinnum dæmt reykingamönnum í hag í skaðabótamálum gegn tóbaksframleiðendum. Þremur þessara dóma var snúið við af áfrýjunarrétti og í tveimur tilfellum ákváðu dómarar í málunum að lækka skaðabótaupphæðina sem kviðdómurinn vildi veita.