Uday Hussein fékk 99,99% atkvæða

Uday Hussein á kjörstað í gær.
Uday Hussein á kjörstað í gær. AP

Uday Saddam Hussein, elsti sonur Saddams Husseins, var kjörin á þing landsins í gær með 99,99% greiddra atkvæða, að sögn dagblaðs í morgun. Uday bauð sig fram fyrir Baath flokkinn, stjórnarflokk föður síns, í fimmta kjördæmi í Bagdad þar sem 289 þúsund manns greiddu atkvæði. 9 aðrir frambjóðendur buðu sig fram í kjördæminu en fimm þingsæti voru þar í boði.

Niðurstaðan í kjördæmi Udays var birt áður en formleg úrslit voru tilkynnt. Sendimenn segja engan vafa leika á að Saddam sé að undirbúa að Uday taki við af sér sem forseti landsins. Uday er 35 ára gamall. Hann gengur enn haltur eftir að honum var sýnt banatilræði árið 1996 og kemur sjaldan fram opinberlega. Hann kom þó í gær á kjörstað. „Við viljum gera okkar besta fyrir þessa stórkostlegu þjóð, hugrökku karlmenn og glæsilegu konur," sagði hann við blaðamenn sem spurðu hann hvers vegna hann byði sig fram. Uday stjórnar öflugri hersveit og hefur sankað að sér ýmsum titlum. Hann er meðal annars forseti blaðamannasambands og námsmannasambands Íraks, stjórnarformaður nokkurra dagblaða, útgefandi Babel, stærsta blaðs landsins, yfirmaður sjónvarps- og útvarpsstöðva, formaður írösku ólympíunefndarinnar og knattspyrnusambandsins og á einnig næturklúbb í Bagdad. Baath flokkurinn bauð 142 frambjóðendur fram í kosningunum en kosið var um 220 sæti. Allir þeir sem sækjast eftir þingsetu verða að trúa á gildi byltingarinnar 17. júlí 1968, en þá komst Baath flokkurinn til valda í landinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka