Robert Ray, óháður saksóknari í Bandaríkjunum, sagði í gær að Bill Clinton Bandaríkjaforseti og eiginkona hans, Hillary, yrðu ekki sótt til saka vegna Whitewater-málsins sem snýst um lóðaviðskipti þeirra í Arkansas þegar Clinton var þar ríkisstjóri.
Ray kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að ákæra Clinton-hjónin, vegna ónógra sannana. Rannsóknin beindist að því hvort hjónin hefðu gerst sek um lögbrot af ásettu ráði í Whitewater-málinu, m.a. meinsæri eða tilraun til að hindra framgang réttvísinnar.
Saksóknarinn kvaðst ætla að senda þremur dómurum áfrýjunardómstóls lokaskýrslu sína um málið. Þeir sem nefndir væru í skýrslunni fengju tækifæri til að gera athugasemdir við hana á næstu mánuðum.
Ray á næst að ákveða hvort ákæra eigi Clinton forseta, eftir að hann lætur af embætti, í tengslum við rannsóknina á sambandi hans við Monicu Lewinsky, fyrrverandi starfsstúlku í Hvíta húsinu.
Washington. Reuters.