Aðgerðarsinnar gegn alþjóðavæðingu mótmæla í Prag

Fimm þúsund manns, aðgerðarsinnar úr öllum áttum, eru nú saman …
Fimm þúsund manns, aðgerðarsinnar úr öllum áttum, eru nú saman komnir á einu torgi borgarinnar og kalla, "stöðvum efnahagslega ógnvaldinn núna". AP

Mótmælin gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, IMF, og Alþjóðabankanum halda áfram í Prag þar sem árlegur fundur stofnananna fer fram. Fimm þúsund manns, aðgerðasinnar úr öllum áttum, eru nú saman komnir á einu torgi borgarinnar og kalla, "stöðvum efnahagslega ógnvaldinn núna". Aðgerðarsinnar, sem eru á móti efnahagslegri alþjóðavæðingu hafa gert þessar tvær alþjóðlegu stofnanir að helsta skotspóni sínum.

Mótmælin núna koma í framhaldi af svipuðum mótmælum í fyrra í Seattle og í Washington í vor. Tékknesk yfirvöld hafa stöðvað 300 manns, sem hafa verið handtekin á öðrum mótmælum gegn alþjóðavæðingu, og leyfðu þeim ekki að koma inn í landið. Ekki er eins mikil þátttaka í mótmælunum og skipuleggjendur höfðu leyft sér að vona en þeir höfðu búist við um 20 þúsund manns. Tékkneska lögreglan fylgist grannt með mótmælunum og hefur sent um 11 þúsund lögreglumenn á svæðið. Sem stendur lítur því út fyrir að tveir lögreglumenn séu um hvern mótmælanda. Eitt takmarka mótmælendanna er að mynda hring um húsið og hindra þannig fundarmenn í að yfirgefa ráðstefnusvæðið. Þeir hafa einnig hótað að hindra umferð og lama neðanjarðarlestakerfið. Mótmæli undanfarinna daga hafa þó í heildina verið fremur friðsamleg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert