Kjörstjórn boðar aðra umferð forsetakosninga í Júgóslavíu

Hermenn standa vörð í borginni Niksic í Svartfjallalandi, öðru sambandsríkinu …
Hermenn standa vörð í borginni Niksic í Svartfjallalandi, öðru sambandsríkinu í Júgóslavíu en búist er við að ókyrrt verði víða í Júgóslavíu í kjölfar tilkynningar kjörstjórnarinnar. AP

Kjörstjórn Júgóslavíu tilkynnti síðdegis að önnur umferð forsetakosninga myndi fara fram í kjölfar talningar atkvæða sem greidd voru í kosningunum á sunnudag. Sagði kjörstjórnin að Vojislav Kostunica frambjóðandi stjórnarandstöðunnar hefði fengið fleiri atkvæði en Slobodan Milosevic forseti Júgóslavíu en hvorugur hefði náð hreinum meirihluta og þurfi því að koma til síðari umferðar þann sem væntanlega verður haldin 8. október.

Serbneska ríkisstjónvarpið skýrði frá því að kjörstjórnin hefði tilkynnt að Milosevic hefði fengið 40,2% atkvæða í forsetakjörinu en Kostunica 48,2%. Kjörstjórnin sagði að kjörsókn í kosningunum hefði verið 64,16% en alls eru 7,8 milljónir skráðra kjósenda í landinu. Samband stjórnarandstöðuflokka í Serbíu hafði áður fullyrt að Kostunica hefði fengið 54,66% atkvæða en Milosevic 35%. Þá sagði ríkissjónvarpið, og hafði eftir kjörnefndinni, að flokkasamband vinstri flokkanna, þar á meðal Sósíalistaflokkur Milosevics, hefði hlotið meirihluta í kosningum til neðri deildar sambandsþingsins og myndi stofna eigin ríkisstjórn. Zoran Djindjic, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagði eftir að tilkynning kjörstjórnar barst, að gerð yrði krafa um að fá að sjá kjörgögnin. Farið yrði yfir þau til að bera saman við önnur gögn sem fyrir lægju. Tveir sólarhringar liðu frá því kjörstöðum var lokað þar til kjörstjórnin birti niðurstöðuna. Djindjic hafði áður sagt að stjórnarandstaðan óttaðist að þögn nefndarinnar kynni að benda til þess að stjórnvöld þyrftu tíma til að falsa kjörgögn og atkvæði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka