Leiðtogar Palestínumanna hafa hvatt til allsherjarverkfalls í dag í kjölfar verstu átaka í Jerúsalem milli Ísraela og Palestínumanna í nokkur ár. Fimm Palestínumenn eru sagðir hafa látið lífið í átökum við lögreglu í Jerúsalem og á Vesturbakkanum. Þá eru um 150 manns sem hafa slasast í átökunum. Í fyrstu voru sjö Palestínumenn sagðir hafa fallið en það mun ekki eiga við rök að styðjast. Einn ísraelskur lögreglumaður er sagður hafa verið skotinn til bana á Vesturbakkanum og annar slasast. Þá var ráðist að 30 lögreglumönnum með steinum og öðru lauslegu.
Átökin hófust í kjölfar hefðbundinna föstudagsbæna múslíma. Vísaði lögregla um 22 þúsund múslímum, sem sótt höfðu hádegisguðþjónustu í moskum á Musterishæð, á brott til þess að hún gæti tekið óeirðarseggi höndum, en þeim laust saman við lögreglu. leiðtogar Palestínumanna hafa hvatt til þess að Palestínumenn leggi niður vinnu í dag og að hann verði dagur sorgar um alla byggð Palestínumanna í Ísrael.