Hætta þykir á, að hluti af La Palma, helstu eldfjallaeyjunni á Kanaríeyjum, hrynji í sjó fram með þeim afleiðingum, að gífurleg flóðbylgja gangi á landi á eyjunum í Karíbahafi og á Flórída. Kemur það fram í grein eftir breskan vísindamann í vikuritinu New Scientist, sem kemur út á laugardag.
Í greininni segir Simon Day, sem starfar við rannsóknastöð í náttúruhamförum við University College í London, að stór hluti af La Palma sé mjög óstöðugur. Komi til þess, að hann skríði fram í sjó, muni það valda stórkostlegri flóðbylgju en áður eru dæmi um.
"Flóðbylgjan myndi fara á þotuhraða og ganga á land við allt norðanvert Atlantshaf," segir Day.
Day, sem vann að rannsókninni í boði eldfjallamiðstöðvarinnar á Kanaríeyjum, var við mælingar á Cumbre Vieja, virku eldfjalli á suðurhluta La Palma, í tvö ár. Er það niðurstaða hans, að vesturhlutinn, um 500 milljarðar tonna af bergi, sé smám saman að losna frá eða eftir því sem eldvirknin færir meiri kviku upp á yfirborðið. Segir hann, að mikið gos í fjallinu gæti orðið til að koma skriðunni af stað.
Í New Scientist segir, að menn greini á um hvenær líklegt sé, að þessar hugsanlegu hamfarir geti orðið en eldfjallið hefur aðeins gosið sjö sinnum á sögulegum tíma. Gaus það síðast 1971 og þá alveg syðst á eyjunni, allfjarri hinum óstöðuga vesturhluta fjallsins. Bendir það til, að oft megi gjósa áður en fjallið fer af stað.
París. AFP.