George W. Bush Bandaríkjaforseti lagði 2,13 þúsund milljarða dollara fjárlagafrumvarp fyrir Bandaríkjaþing í dag en í frumvarpinu er gert ráð fyrir milljarða dollara aukningu á framlögum til varnarmála og stríðsins gegn hryðjuverkum. Fjárframlög til félagsmála, umhverfis- og samgöngumála eru hins vegar dregin saman.
Við kynningu frumvarpsins sagðist Bush vera tilbúinn til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sigra í stríðinu gegn hryðjuverkum, verja landa sína og stjórnarskrárbundið frelsi þeirra en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 48 milljarða dollara aukningu á framlögum til varnarmála og 37,7 milljarða dollara aukningu í framlögum til öryggismála innan Bandaríkjanna. Þá er gert ráð fyrir 106 miljarða dollara rekstrarhalla á næsta fjárlagaári en síðustu fjögur ár hefur verið tekjuafgangur af rekstri bandaríska ríkisins. Gera má ráð fyrir að deilt verði um frumvarpið á Bandaríkjaþingi næstu mánuði en Kent Conrad, formaður fjárlaganefndar ríkisins, hefur þegar líkt frumvarpinu við gjaldþrot stórfyrirtækisins Enron. "Enron lenti í vandræðum vegna þess að menn reyndu að fela skuldastöðu fyrirtækisins en það er einmitt það sem alríkisstjórnin er að gera," sagði hann.