Bar fé á menn og fékk að fara

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. AP

Osama bin Laden slapp úr klóm Bandaríkjamanna í Afganistan sökum mistaka, sem gerð voru í leitinni að Sádi-Arabanum. Þannig bjuggu Bandaríkjamenn alls ekki yfir fullnægjandi upplýsingum um aðstæður í Afganistan og hirtu ekki um að verða sér úti um þær, bandamenn þeirra í Afganistan reyndust leika tveimur skjöldum og þá beittu þeir röngum herfræðilegum aðferðum í eftirför sinni.

Þetta er niðurstaða úttektar sem bandaríska dagblaðið Christian Science Monitor birti í gær. Fullyrðir blaðið að fyrir vikið hafi besta tækifæri Bandaríkjastjórnar til að handsama bin Laden runnið henni úr greipum.

Í grein Christian Science Monitor er rakið hvernig bin Laden komst undan. Er stuðst við fjölmarga heimildarmenn, bæði heimamenn og erlenda aðila sem vel þekkja til. Blaðið rekur flótta bin Ladens frá borginni Jalalabad til fjallavirkisins í Tora Bora.

"Við munum kenna þeim lexíu"

Rakið er efni ræðu sem bin Laden flutti heittrúuðum múslímum í Jalalabad 10. nóvember sl., daginn áður en hann flúði borgina, tveimur dögum áður en höfuðborgin Kabúl féll í hendur Norðurbandalagsins, bandamanna Bandaríkjanna í þessum átökum.

"Bandaríkjamenn höfðu uppi áform um innrás í Afganistan en samstaða okkar og trú á Allah mun verða þess valdandi að við munum kenna þeim lexíu, þá sömu og við kenndum Rússum," á bin Laden að hafa sagt í ræðu sinni en heimildarmennirnir eru tveir héraðshöfðingjar sem viðstaddir voru þessa kveðjuræðu bin Ladens. Minnist annar þeirra, Malik Habib Gul, þess að þetta kvöld hafi verið haldin mikil veisla og voru allir gestanna leystir út með peningum.

Bin Laden hélt til Tora Bora daginn eftir en um þetta leyti mögnuðust mjög loftárásir Bandaríkjamanna á Jalalabad. Fóru þeir af þeim sökum í nokkrum flýti, bin Laden í brynvarinni, breyttri Toyota Corolla-bifreið.

Þegar Bandaríkjamenn hófu vægðarlausar loftárásir sínar á Tora Bora tryggðu bin Laden og menn hans sér undankomuleið með því að bera fé á heimamenn. Jafnframt hamlaði það mjög aðgerðum á jörðu niðri að höfðingjarnir tveir, sem Bandaríkjamenn völdu til samstarfs, deildu mjög sín á milli. Varð það til þess að Tora Bora-fjallasvæðið var aldrei umkringt og mennirnir, sem þar höfðust við, áttu býsna auðvelt með að láta sig hverfa.

Kom einnig á daginn að höfðingjarnir tveir, Hazret Ali og Haji Zaman Ghamsharik, reyndust þegar til kom tregir til að beita liðsafla sínum gegn al-Qaeda-liðum og þeim talibönum sem héldu uppi vörnum í Tora Bora.

Segir Pir Baksh Bardiwal, höfðingi frá A-Afganistan, að þær þúsundir pakistanskra hermanna, sem komið var fyrir á landamærum Pakistans og Afganistans, hafi aldrei sinnt því starfi sínu að koma í veg fyrir að al-Qaeda-liðar færu yfir til Pakistans. Kveðst hann jafnframt hafa undrast það mjög að Bandaríkjamenn skyldu ekki láta sér detta í hug að koma fyrir léttvopnuðum hersveitum á allra augljósustu flóttaleiðunum yfir landamærin. "Landamærin að Pakistan skiptu sköpum en það leiddi enginn hugann að þeim," sagði hann.

Reiddu fé af hendi og fengu að fara sína leið

Greinir Christian Science Monitor frá því að á bilinu 28.-30. nóvember hafi bin Laden haldið á brott frá Tora Bora áleiðis að landamærunum að Pakistan. Fylgir sögunni að Haji Hayat Ullah, gamall kunningi bin Ladens, hafi 3. desember greitt bandamönnum Bandaríkjanna í Jalalabad peninga gegn því að þrír ónafngreindir arabar fengju að fara yfir landamærin til Pakistans. Er líklegt að bin Laden hafi þar verið á ferð. Héraðshöfðingjarnir í Jalalabad höfðu reyndar þegar fengið borgað fyrir að tryggja að enginn kæmist yfir landamærin en arabarnir reyndust einfaldlega færir um að borga enn meira og gátu því látið sig hverfa.

Einnig kemur fram í greininni að það hafi grafið undan tilraunum Bandaríkjamanna til að hafa hendur í hári bin Ladens að þeir höfðu litla þekkingu á innbyrðis flokkadráttum héraðshöfðingjanna í Afganistan. Gerðu þeir sér aldrei nægjanlega grein fyrir því að héraðshöfðingjar sem gengu til liðs við baráttuna gegn bin Laden og félögum léku oftar en ekki tveimur skjöldum.

Washington. AFP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert