Palestínskar mæðgur drepnar í misgripum fyrir hryðjuverkamenn

Palestínumaður tendrar kertaljós í morgunmessu í Fæðingarkirkjunni í Betlehem eftir …
Palestínumaður tendrar kertaljós í morgunmessu í Fæðingarkirkjunni í Betlehem eftir að Ísraelsher hvarf þaðan í morgun. AP

Ísraelsher réðist inn í borgina Qalqiliya á Vesturbakkanum í dag eftir að hafa horfið frá Betlehem í nótt. Þá segir í frétt Reuters að herinn hafi aukið innrásir inn á heimastjórnarsvæðin í kjölfar fjögurra sjálfsmorðsárása í síðustu viku. Ísraelskur hermaður skaut og særði heyrnarlausan rútufarþega í dag þar sem að hermaðurinn hélt að maðurinn væri palestínskur sjálfsmorðsárásarmaður. Talsvert er um að ísraelskir hermenn skjóti fólk, stundum til bana, í misgripum fyrir árásarmenn.

Palestínsk kona og 13 ára dóttir hennar létu lífið í gærkvöldi þegar Ísraelsher hóf skothríð á þær á Gaza-svæðinu. Hermennirnir hófu skothríðina þegar þeir sáu „grunsamlegar mannaferðir" við girðingu sem aðskilur Gaza-svæðið og Ísrael. Herinn hefur harmað dauða mæðgnanna. Ísraelsher réðist inn í Qalqiliya fyrir sólarupprás en herinn segir markmið árásarinnar vera að afstýra hryðjuverkum sem ráðgerð hafi verið í borginni. Herinn mun þó ekki hafa haft árangur sem erfiði þar sem honum tókst ekki að hafa hendur í hári leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Heilagt stríð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert