Lundúnalögreglan leitar nú simpansa sem sagður er hafa framið innbrot í tvær íbúðir í austurhluta borgarinnar en tilkynnt var um þau með klukkustundar millibili í gærmorgun.
Simpansinn er sagður hafa haft á brott með sér farsíma og hljómflutningstæki úr öðru innbrotinu en bæði áttu sér stað við Gore Road, í hverfinu Hackney.
Að sögn talsmanns Scotland Yard vaknaði íbúi á öðru heimilinu við þrusk á efri hæð hússins og sá upp stigann hvar kafloðin hálfs annars metra há vera skaust milli herbergja og út.
„Þetta var svartur og hærður simpansi. Hann var breiður um bakið og stæltur, ég óttaðist að hann myndi bíta mig," sagði húsráðandinn í samtali við breska blaðið The Sun. Seinna innbrotið var framið hjá honum en hið fyrra um 20 húsum neðar í götunni. Þar var DVD-spilari færður úr stað og armbandsúrs er saknað.
„Lögreglan leitaði fingrafara en hvernig er hægt að finna simpansa með þeim hætti?" spurði ung kona sem átti þá íbúð. Lögreglan athugaði hvort apa vantaði í sirkus sem var með aðsetur skammt frá, í Victoria Park. Svo reyndist ekki vera.
Þriðji íbúinn við götuna telur að simpansinn kunni að hafa litið þar inn. „Er ég vaknaði í gærmorgun var búið að leggja dót í hrúgu á herbergisgólfi og allt útlit fyrir að einhver hafi komist inn og ætlað að stela. Ég veit bara ekki hvort það var simpansi," sagði hann við BBC.
Málið þykir hið einkennilegasta en talsmaður lögreglunnar segir hana leggja fullan trúnað á frásagnir fólksins sem telur sig hafa fengið simpansann í heimsókn.