Þjóðarleiðtogar í Evrópu hafa í dag lýst vonbrigðum með að Bandaríkjamenn skyldu hefja árásir á Írak í nótt. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, sagði að dagurinn í dag væri sorglegur á margan hátt og Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði árásina vera brot á alþjóðalögum.
„Það er alltaf erfitt að réttlæta stríð og ég harma að við skulum nú standa frammi fyrir slíku," sagði Bondevik á blaðamannafundi í dag.
„Við vonuðum að Saddam Hussein myndi virða kröfur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram á undanförnum árum og hægt yrði að ná fram friðsamlegri lausn."
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem hefur stutt hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna, sagðist vona að stríðið verði eins stutt og mögulegt er og borgurum í Írak verði hlíft við miklum þjáningum.
„Danir eru ekki enn aðilar að þessu stríði en ég vona að danska þingið taki ákvörðun á föstudag um aðild Dana að afvopnun Saddams Husseins," sagði Rasmussen í yfirlýsingu. Utanríkismálanefnd þingsins hefur veitt samþykki fyrir sitt leyti.
Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að árás Bandaríkjamanna væri brot á alþjóðalögum og allar tilraunir til að afvopna Saddam Hussein yrðu að hljóta samþykki öryggisráðs SÞ. Hann viðurkenndi þó að málið væri ekki einfalt þar sem Írakar hefðu ekki orðið við kröfum um afvopnun.
Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði að árásin á Írak væru „þungbærar fréttir," og hægt hefði verið að koma í veg fyrir stríð; það sýndi sá árangur sem vopnaeftirlitsmenn hefðu náð á síðustu mánuðum í Írak.
Fischer sagði nú að helsta áhyggjuefnið væri afdrif almennra borgara í Írak. „Við vonum að aðgerðunum ljúki eins skjótt og unnt er og að óbreyttum borgurum verði þyrmt," sagði Fischer.