Erindreki Sameinuðu þjóðanna, Razali Ismail, sagðist í dag ekki ætla að hætta við fyrirhugaða heimsókn sína til Búrma, einnig nefnt Myanmar, á morgun þar sem hann mun færa herforingjastjórn landsins skýr skilaboð um að sleppa eigi lýðræðissinnanum Aung San Suu Kyi tafarlaust úr haldi. Ismail segir að háttsettir embættismenn SÞ hafi farið þess á leit við sig að hann hætti ekki við heimsóknina þó svo að Suu Kyi hafi verið tekin til fanga á föstudaginn í síðustu viku.
„Mér finnst ég eigi að fara, að ferðin eigi að eiga sér stað og að ég eigi að láta í ljós einarða afstöðu SÞ gagnvart stjórnvöldum í Myanmar um að Suu Kyi eigi að verða látin laus og að ég eigi að fá fund með henni,“ sagði erindrekinn í samtali við AP-fréttstofuna.
Heimsóknin var ákveðin með löngum fyrirvara, en efasemdir vöknuðu um tilgang hennar eftir að Suu Kyi var tekin höndum. Háttsettir embættismenn í Búrma sögðu að Razali yrði heimilað að heimsækja landið en neituðu að tjá sig um það hvort hann fengi að hitta Suu Kyi.
Herforingjastjórnin tók leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Suu Kyi, höndum eftir að átök brutust út milli stuðningsmanna hennar og stuðningsmanna herforingjastjórnarinnar. Talsmenn útlægra hópa stjórnarandstæðinga segja að Suu Kyi hafi særst í átökunum en herforingjastjórnin hefur neitað því. Stjórnin sakar Þjóðarbandalag fyrir lýðræði, sem er flokkur Suu Kyi, um að hvetja til ofbeldis. Stjórnarandstæðingar saka hins vegar herforingjastjórnina um að setja átökin á svið til að brjóta á bak aftur stuðningsmannahóp Suu Kyi en hún hefur átt síauknu fylgi að fagna.