Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í dag herforingjastjórnina á Búrma til að láta Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, lausa úr haldi tafarlaust of hefja að nýju sáttaviðræður við stjórnarandstöðuna. Sérlegur fulltrúi SÞ fyrir Búrma, Razali Ismail, átti fund með Suu Kyi í Rangoon og sagðist telja að herforingjastjórnin hefði í hyggju að láta hana lausa úr haldi innan hálfs mánaðar.
Razali greindi frá því fyrr í dag að hann hafi átt fund með Suu Kyi í herbúðum skammt frá höfuðborginni Rangoon. Fulltrúinn dvaldi fimm daga í Búrma, einnig nefnt Myanmar, og ræddi við blaðamenn á flugvellinum í Kuala Lumpur. Hann sagðist vonast til að Suu Kyi verði sleppt fyrr úr haldi en eftir tvær vikur.
Fred Eckhard, talsmaður SÞ, sagði að Annan hefði fagnaði upplýsingum Razalis um að Suu Kyi væri ómeidd og létt í lund. Eckhard bætti við að Annan hefði miklar áhyggjur af því að ferðafrelsi hennar og annarra lýðræðissinna hefði verið skert.
Suu Kyi var handtekin í norðurhluta Búrma eftir ofbeldisfull átök milli stuðningsmanna hennar og stuðningsmanna herforingjastjórnarinnar.