Herforingjastjórnin í Myanmar virti í dag að vettugi alþjóðlega gagnrýni yfir fangelsun lýðræðissinnans og friðarverðlaunahafans Aung San Suu Kyi og sakaði í stað þess stjórnarandstöðu flokk hennar um þá pólitísku pattstöðu sem ríkir í landinu. Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa þrýst á um það við herforingjastjórnina að hún láti Suu Kyi lausa úr haldi eftir tæplega hálfs mánaðar varðhald.
Suu Kyi var handtekin eftir að átök brutust út milli stuðningsmanna hennar og stuðningsmanna herforingjastjórnarinnar í norðurhluta Búrma. Að minnsta kosti fjórir létu lífið í átökunum. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti með miklum meirihluta í gær að setja viðskiptaþvinganir á Myanmar, og Colin Powell utanríkisráðherra sagðist myndi leggja það til við leiðtoga í Suðaustur-Asíu í næstu viku að þrýst verði á herforingjastjórnina um að láta Suu Kyi lausa úr haldi. Kínverjar og Malasía, nánustu bandamenn herforingjastjórnarinnar, hafa varað við því að beita stjórnina þrýstingi.
George W. Bush Bandaríkjaforseti tók undir kröfu Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, um að tafarlaust verði teknar upp pólitískar viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu í Myanmar.