Baráttan fyrir lausn friðarverðlaunahafans Aung San Suu Kyi úr haldi herforingjastjórnarinnar í Búrma hefur getið af sér sjaldgæfa samstöðu á fundi Asíu-Kyrrahafsríkja. Þrýstingurinn varð til þess að utanríkisráðherra Búrma hét því að fangelsun stjórnarandstæðingsins Suu Kyi væri einungis tímabundin, að því er segir í frétt Reuters.
Utanríkisráðherrar á ASEAN-fundinum ræddu einnig önnur vandamál heimshlutans og í lokayfirlýsingu fundarins segir að ekki sé unnt að leyfa Norður-Kóreustjórn að smíða kjarnorkuvopn.
Á fjögurra daga fundinum í Phnom Penh, höfuðborg Kambódíu, var myndaður þrýstingur á herforingjastjórnina sem aldrei fyrr. Fundurinn markar tímamót, því aldrei áður hafa ASEAN-samtökin skipt sér af innanríkismálum einstakra ríkja en 36 ár eru liðin frá stofnun samtakanna.
Win Aung, utanríkisráðherra Búrma, varði gerðir herforingjastjórnarinnar, en greindi ekki frá því hvenær Suu Kyi, sem varð 58 ára í dag, yrði látin laus úr haldi.