Aung San Suu Kyi, foringi stjórnarandstöðunnar í Burma og friðarverðlaunahafi Nóbels, er 58 ára í dag. Hún er enn í haldi herforingjastjórnarinnar í landinu þrátt fyrir háværar kröfur alþjóðasamfélagsins, m.a. frá Sameinuðu þjóðunum, um að hún verði tafarlaust látin laus. Stuðningsmenn hennar í Burma, Taílandi og víðar mótmæltu aðgerðum herforingjastjórnarinnar í dag.
Aung San Suu Kyi var hneppt í gæsluvarðhald eftir átök þann 30. maí. Þá létu nokkrir stjórnarandstæðingar lífið en stjórnvöld segja að hún sé ómeidd. Ekki er vitað hvar Aung San Suu Kyi er í haldi og yfirvöld vilja ekkert láta uppi, segja einungis að hún sé á "öruggum stað".