Suu Kyi flutt milli fangelsa

Stuðningsmaður Aung San Suu Kyi krefst þess, fyrir framan þinghúsið …
Stuðningsmaður Aung San Suu Kyi krefst þess, fyrir framan þinghúsið í Seoul í S-Kóreu, að friðarverðlaunahafanum verði sleppt úr fangelsi. AP

Aung San Suu Kyi, lýðræðissinni og leiðtogi stjórnarandstæðinga á Búrma, hefur verið færð úr hinu alræmda Insein-fangelsi í kjölfar gagnrýni Sameinuðu þjóðanna um að henni hafi verið haldið þar við hörmuleg skilyrði. Ónafngreindur heimildarmaður AFP-fréttastofunnar greindi frá þessu í dag. Flutningurinn er þó of lítið skref til að sefa reiði alþjóðasamfélagsins yfir handtöku Suu Kyi og er hann talinn benda til þess, að herforingjastjórnin á Búrma ætli ekki að sleppa Suu Kyi í bráð.

Talið er að Suu Kyi hafi verið flutt úr Insein-fangelsinu í lok síðustu viku og sé núna haldið á ótilgreindum stað, að því er heimildarmaðurinn greindi AFP frá. Forsætisráðherra Taílands greindi frá því í dag, að Suu Kyi væri haldið á „griðastað“. Thaksin Shinawatra forsætisráðherra átti fund með Khin Maung Win, aðstoðarutanríkisráðherra í herforingjastjórn Búrma, í gær á Taílandi. Thaksin sagðist hafa verið sýnd ljósmynd af Suu Kyi og af myndinni að dæma sé hún við góða heilsu.

Suu Kyi, sem hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels, hefur verið í haldi frá 30. maí sl. eftir að til átaka kom milli stuðningsmanna hennar og andstæðinga. Herforingjastjórnin segir fjórar manneskjur hafa látið lífið í átökunum en lýðræðissinnar segja töluna vera mun hærri, allt að 70.

Þegar Thaksin innti Khin Maung Win eftir því hvenær Suu Kyi yrði sleppt, sagðist hann myndi leggja sitt af mörkum til þess að það yrði „eins fljótt og auðið er“.

Heimildarmaður AFP segir mögulegt að Suu Kyi hafi verið flutt í herbúðirnar Yemon, um 40 km frá Rangoon, þar sem pólitískum föngum oft haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert