Stonehenge er risastórt frjósemistákn, segja kanadískir vísindamenn sem telja sig loksins hafa náð að afhjúpa leyndardóminn um hið forna mannvirki í Suður-Englandi. Steinunum er nefnilega raðað upp þannig að merkið er greinileg eftirmynd af kynfærum kvenna, að sögn vísindamannanna, sem vitnað er til á CNN.
Stonehenge var byggt einhvern tíma á bilinu 3.000-1.600 fyrir Krists burð og hafa menn í aldir velt fyrir sér hver tilgangurinn með byggingu þess var. Musteri og stjörnufræðisetur eru á meðal kenninga sem komið hafa fram auk þess sem andleg iðja af ýmsu tagi á að hafa verið stunduð þar. Anthony Perks, fyrrum prófessor í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum við Háskólann í Bresku-Cólombíu, telur sig hafa fundið svarið. "Fyrir þá sem byggðu merkið voru fæðing og dauði mikilvægustu atburðir lífsins." Hann bendir á, að á svæðinu séu engin merki um grafir þeirra, sem upprunalega byggðu merkið.
Þegar horft er á Stonhenge ofan frá getur Perks sér til að blái sandsteinshringurinn sem er fyrir innan sé mynd af innri skapabörmum kynfæra kvenna en stóri hringurinn fyrir utan séu ytri barmarnir. Altarissteinninn svonefndi sé snípurinn og opið í hringnum fæðingarvegurinn.
"Getur verið að leiðin út úr Stonehenge... tákni leiðina sem nýtt líf kom eftir í heiminn?" spyr Perks í grein sinni sem birtist í Britain´s Journal of the Royal Society of Medicine. Hann bendir á að í fornum samfélögum hafi hugmyndir um almáttugan skapara, móður jörð eða jarðargyðju, verið útbreiddar. Stonehenge geti táknað opið sem móðir jörð fæddi lífverur heimsins í gegnum, plöntur og dýr, sem hinar fornu þjóðir lifðu á.