Í dag, nærri 28 árum eftir að bandaríski verkalýðsleiðtoginn Jimmy Hoffa hvarf í Detroit hófu lögreglumenn leit að skjalatösku sem uppljóstrari saði að væri grafin undir sundlaug í húsagarði í Hampton í Michigan. Talið var að í skjalatöskunni væru gögn sem gætu varpað ljósi á hvarf Hoffas. Lögreglan leitaði í sex klukkustundir en ekkert fannst. Til stendur að fara yfir svæðið með málmleitartækjum.
Hoffa, sem var 62 ára, hvarf 30. júlí árið 1975 af bílastæði í Oaklandsýslu, um 40 km norður af Detroit. Lögregla segir að uppljóstrarinn, fangi sem heitir Richard Powell, hafi vísað lögreglu á staðinn þar sem hann sagði að töskuna væri að finna en Powell bjó þarna á áttunda áratugnum. Powell situr inni fyrir morð og Joel Luethjohann, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Baysýslu, segir að Powell hafi sagt lögreglu að hann hafi grafið lík manns undir húsinu. Lögreglan leitaði þar og fann lík manns sem hafði verið týndur í 30 ár.
Powell hefur lengi haldið því fram að hann tengist Hoffamálinu en stjórnvöld hafa til þessa ekki tekið hann alvarlega. Powell sagði í blaðaviðtali árið 1984 að hann hefði verið í slagtogi við bílaþjófa og hefði verið beðinn að aka hjólhýsi með líki til norðurhluta Michigan. Hann sagði að þar hefði annar maður tekið á móti sér og borið líkið, sem vafið var inn í teppi, á brott.
Powell breytti sögu sinni fyrr á þessu ári og sagði lögreglu að lík Hoffas væri grafið undir sundlauginni við húsið þar sem Powell bjó áður. Þar sem fullyrðingar Powells um hitt líkið, voru réttar ákvað lögreglan nú að kanna málið.
Þegar Hoffa hvarf var hann á leið á fund með Anthony Provenzano, leiðtoga félags vörubílstjóra í New Jersey, og Anthony Giacalone, mafíuforingja í Detroit. Lögregla telur að Provenzano og Giacalone hafi látið drepa Hoffa til að koma í veg fyrir að hann næði aftur völdum í verkalýðsfélaginu eftir að hafa setið í fangelsi fyrir að hindra framgang réttvísinnar.