Slegist í japanska þinginu vegna frumvarps um friðargæslu

Átök brutust út í japanska þinginu í morgun þegar formaður …
Átök brutust út í japanska þinginu í morgun þegar formaður þingnefndar kom út af fundi þar sem nefndin afgreiddi frumvarp um friðargæslu í Írak. AP

Mikið gekk á í japanska þinginu í morgun þegar frumvarp, sem heimilar stjórnvöldum að senda friðargæslulið til Íraks, var samþykkt í þingnefnd efri deildar þingsins. Stjórnarandstaðan berst hart gegn frumvarpinu á þeirri forsendu að það kunni að brjót gegn stjórnarskrá landsins, sem bannar Japönum að senda herlið til bardaga í öðrum ríkjum. Gerður var aðsúgur að formanni þingnefndarinnar eftir að frumvarpið var samþykkt í nefndinni og einnig var lögð fram vantrauststillaga á stjórnina í neðri deild þingsins en sú tillaga var felld enda hafa ríkisstjórnarflokkarnir meirihluta í báðum deildum.

Junichiro Koizumi, forsætisráðherra, hefur lagt mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt en samkvæmt því mega Japanar senda sveitir til stuðnings bandalagshernum í Írak. Ekki er þó gert ráð fyrir að japönsku sveitirnar taki beinan þátt í átökum heldur verði um að ræða verkfræðinga og aðra sérhæfða hermenn sem aðstoða við flutninga og byggingarvinnu.

Neðri deild japanska þingsins samþykkti frumvarpið fyrr í þessum mánuði. Búist er við að frumvarpið verði einnig samþykkt í efri deild síðar í dag eða á morgun en stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi um frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka