Þriðjungur fólks þjáist af „stjörnudýrkunarheilkenni“, samkvæmt rannsókn sem birt er í nýjasta tölublaði tímaritsins New Scientist. Nefnt heilkenni lýsir sér í dýrkun á ríka og fræga fólkinu og verður sumum háskaleg fíkn, að sögn rannsakendanna Lynn McCutcheon og James Houran. Þau ræddu við rúmlega 600 manns um persónuleika viðkomandi og áhuga á frægu fólki.
Fullyrðingar á borð við „Ég er haldin(n) þráhyggju um smáatriði í lífi eftirlætisstjörnunnar minnar.“, „Ég lít á eftirlætisstjörnuna mína sem sálufélaga minn.“ og „Ef hann/hún bæði mig um að gera eitthvað ólöglegt myndi ég líklega gera það.“ voru lagðar fyrir úrtakið og fólk beðið að leggja mat sitt á þær. Niðurstöðurnar ganga gegn hinu hefðbundna viðhorfi að skipta megi stjörnudýrkun í tvo flokka, sjúklegt eða ekki sjúklegt, með öðrum orðum græskulaust gaman eða þráhyggju. Fremur virðist vera um að ræða „rennikvarða“ (e. sliding scale) þar sem stjörnudýrkandinn verður æ uppteknari af lífi átrúnaðargoðsins.
Einnig leiddi rannsóknin í ljós að þeir sem hafa stjörnudýrkunarheilkennið eru töluvert líklegri en aðrir til að þjást af kvíða, þunglyndi og félagsfælni. Um 20% úrtaksins fylgdust með fjölmiðlaumfjöllun um stjörnurnar. Það fólk reyndist gjarnan vera opnir persónuleikar, félagslegt, virkt og ævintýragjarnt. Á næsta stigi fyrir ofan skapa stjörnudýrkendur sér persónulegt viðhorf gagnvart stjörnunni og telja sig tengjast henni sérstökum böndum. Á því stigi fer dýrkunin að nálgast sjúkleika.
Á efsta stiginu, en þar taldist um 1% úrtaksins vera, er fólk komið á það stig að ofsækja viðkomandi fræga persónu og er jafnvel reiðubúið að vinna sjálfum sér eða öðrum skaða í nafni hennar. James Houran segir ekkert benda til þess að fólk gangi ekki heilt til skógar þótt það dýrki fræga manneskju, en vissulega séu þeir sem það gera þó komnir í áhættuhóp.