Stjörnufræðingar hafa komist að þeirri sorglegu niðurstöðu í nýjustu rannsóknum sínum að með tímanum muni stjörnurnar hætta að glitra á himninum.
Það hefur lengi verið vitað að gamlar stjörnur kulna og nýjar stjörnur kvikna í þeirra stað en nýjar rannsóknir sýna hins vegar að fjöldi nýrra stjarna hefur farið síminnkandi á síðustu milljónum ára.
Samkvæmt nýjum útreikningum eru stjörnurnar á himninum tíu sinnum fleiri en sandkornin á öllum ströndum og eyðimörkum heimsins og því munu líða milljarðar ára áður en nokkurra breytinga verður vart á himninum.
"Samkvæmt þeim upplýsimgum sem við höfum verður alheimurinn til að eilífu," segir stjörnufræðingurinn Alan Heavens sem starfar við Edinborgarháskóla. "En með tímanum munu allar stjörnurnar kulna og þá verður þetta dimmur og kaldur staður."
Útreikningarnir eru gerðir með því að bera saman lit stjarnanna á himninum en vitað er að ungar stjörnur senda frá sér bláleitt ljós en eldri stjörnur senda frá sér rauðleitt ljós.