Þrjár manneskjur hafa verið skotnar til bana fyrir utan verslanir í og við bæinn Charleston í West Virginia-ríki á tæpri viku, að sögn yfirvalda þar. Hugsanlegt er talið að ein og sama skyttan hafi verið að verki í öllum tilvikum. Maður og kona létust af völdum skotárásar í gærkvöldi við tvær verslanir nærri Charleston og á sunnudag var maður skotinn til bana utan við verslun í vesturhluta bæjarins.
Phil Morris, talsmaður lögreglu í Kanawha-sýslu, lýsti yfir áhyggjum í dag vegna skyldleika málsins við leyniskyttumorðin í Washington í fyrra. Íbúum í Charleston hefur verið ráðlagt að vera ekki einir á ferð við verslanir og vera vakandi fyrir óvenjulegum hlutum. Ekki hefur enn verið skorið úr um hvort fólkið var myrt með sama vopninu en lögregla segir ljóst að skotið hafi verið úr kyrrstöðu í öllum tilvikunum.