Lögregla í Svíþjóð segir að yfirheyrslum yfir manninum, sem handtekinn var í gærkvöldi, verði haldið áfram þegar búið verður að útvega honum verjanda. Lögregla vill ekki svara því hvernig maðurinn hafi svarað spurningum um morðið á Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, við yfirheyrslur í nótt. Þá liggur heldur ekki fyrir hvenær niðurstöður berast úr rannsóknum á lífssýni sem tekið var úr manninum eftir handtökuna en áður hefur komið fram að lífsýni fundust á hnífi, sem morðinginn beitti í árásinni á Lindh, og húfu sem hann er talinn hafa kastað frá sér á flótta eftir árásina.
Lögreglan hélt blaðamannafund í morgun. Að sögn Dagens Nyheter kom þar fram að lögreglan hefur ekki útilokað aðra möguleika þótt maðurinn hafi verið handtekinn í gærkvöldi. Þá vildi lögreglan ekki staðfesta að um væri að ræða manninn, sem myndir höfðu birst af.
„Það er mikilvægt að við höldum áfram að rannsaka aðrar áhugaverðar ábendingar, þótt rannsóknin á manninum sem handtekinn var hafi forgang nú," sagði Stina Wessling, talsmaður lögreglunnar. Saksóknari þarf innan þriggja sólarhringa að taka afstöðu því hvort krafist verði gæsluvarðhalds.
Maðurinn var handtekinn skömmu eftir klukkan 21 að sænskum tíma í gærkvöldi á veitingahúsinu East End nálægt Råsunda-knattspyrnuleikvanginum þar sem hann fylgdist með leik Hammarby og Djurgården á stórum sjónvarpsskjá. Fram kom í Aftonbladet að vitað var að maðurinn var ákafur stuðningsmaður Hammarby og því fylgdist lögreglan grannt með leikvanginum og svæðinu umhverfis hann. Óeinkennisklæddir lögreglumenn sáu manninn á veitingahúsinu og var hann handtekinn í kjölfarið. Hann var óvopnaður og veitti enga mótspyrnu. Tveir menn til viðbótar voru einnig handteknir en þeim var sleppt í gærkvöldi eftir yfirheyrslur.
Gefin var út handtökuskipun á hendur manninum á mánudagskvöld en þá þótti lögreglu ljóst að hann væri maðurinn sem sást á myndum úr öryggismyndavélum í NK-verslunarmiðstöðinni þar sem Anna Lindh var stungin með hnífi á miðvikudag í síðustu viku. Sænskir fjölmiðlar segja að faðir mannsins og önnur skyldmenni hafi þekkt manninn af myndum sem birtar voru opinberlega og látið lögregluna vita.
Í vinfengi við nýnasista
Á fréttavef Aftonbladet sagði að hinn handtekni væri 35 ára karlmaður sem meðal annars hefði umgengist hægri öfgamenn og væri í vinfengi við „nokkra af illræmdustu nýnasistum Svíþjóðar". Haft var þó eftir einum af yfirmönnum rannsóknarlögreglunnar í gærkvöldi að ekkert benti til þess að Lindh hefði verið myrt af pólitískum ástæðum.
Að sögn sænskra fjölmiðla er maðurinn á sakaskrá fyrir átján afbrot og þyngsti dómurinn sem hann hefur fengið er átta mánaða fangelsi fyrir stórfelld fjársvik.
Að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter fékk maðurinn fyrsta dóminn árið 1987. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir þjófnað, skemmdarverk, brot á friðhelgi heimilisins, ofbeldi og hótanir í garð manns í opinberu starfi, ofbeldisfullan mótþróa við handtöku og brot á lögum um meðferð hnífa. Kona er sögð hafa kært hann í fyrra og talið sig vera í hættu vegna hótana hans.
Í síðasta dómnum yfir manninum kemur meðal annars fram að hann sé atvinnulaus, hafi átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða og ekki haft fast aðsetur lengi. Hermt er að hann hafi farið í meðferð í Sviss vegna kókaínfíknar.
Í skýrslu geðlæknis um manninn frá því í fyrra segir að hann hafi ekki „átt við nein alvarleg andleg vandamál að stríða".