Aðgerð á Suu Kyi gekk vel

Aung San Suu Kyi eftir að henni var sleppt úr …
Aung San Suu Kyi eftir að henni var sleppt úr stofufangelsi 6. maí í fyrra. AP

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, var lögð inn á sjúkrahús í Rangoon í dag, að því er kemur fram í frétt BBC. Hún var lögð inn í gærkvöldi til að gangast undir skurðaðgerð á kvensjúkdómadeild. Ekki hefur verið tilgreint nánar hvers konar aðgerð það var en hún muni hafa tekist vel.

Heimildarmenn BBC, sem eru nánir fjölskyldu Suu Kyi, segja að hún hafi sjálf valið einkarekið sjúkrahús og að hennar eigin læknir hafi framkvæmt aðgerðina. Búist er við að hún verði á sjúkrahúsi í nokkra daga.

Suu Kyi hefur verið í haldi herforingjastjórnarinnar í Búrma frá því 30. maí þegar fjöldafundur endaði í blóðugum átökum milli stuðningsmanna hennar og herforingjastjórnarinnar.

Í dag eru liðin 15 ár frá því herinn hrifsaði til sín völdin í Búrma eftir að hafa brotið á bak aftur sigurgöngu lýðræðissinna. Herforingjastjórnin efndi til kosninga 1990 en neitaði að virða niðurstöðurnar eftir sigur lýðræðissinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert