HABL-faraldur kostaði Kanada 114 milljarða

Kanadísk yfirvöld þurfa að gera ráð fyrir um 700 milljónum Kanadadala, eða um 40 milljörðum króna, fram til ársins 2007 og mynda nýja þjóðheilbrigðisstofnun til að berjast gegn hugsanlegum nýjum bráðalungnabólgufaraldri (HABL), að því er ráðgjafanefnd lýsti yfir í dag.

Nefndin sem skipuð var af stjórnvöldum sagði að þetta væri raunsæ upphæð í ljósi þess að um tveimur milljörðum dala, eða 114 milljörðum króna, hefði verið varið til að hefta útbreiðslu faraldursins í Toronto fyrr á þessu ári.

Alls létu 44 lífið í Toronto af völdum HABL en ríflega 25.000 manns voru settir í sóttkví. Í áliti nefndarinnar segir að svo kunni að fara að HABL-smit komi upp að nýju í Kanada en þó svo að það verði ekki muni heilbrigðisyfirvöld þurfa að bregðast við mörgum tilfellum þar sem óttast sé að um HABL sé að ræða þó svo að annað komi síðar í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert