Thaksin Shinawatra, forsætisráðherra Taílands, sagði George W. Bush Bandaríkjaforseta í dag að hann byggist við því að herforingjastjórnin í Búrma, einnig nefnt Myanmar, muni brátt sleppa leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Aung San Suu Kyi, úr stofufangelsi. Bush og Thaksins áttu saman fund í dag til hliðar við fund samtaka Asíu- og Kyrrahafsríkja (APEC) sem fram fer í Bangkok.
„Þar sem þeir hafa leyft henni að snúa aftur heim, munu þeir brátt veita henni frelsi. Eins og er segjast þeir halda henni til að tryggja öryggi hennar,“ sagði Thaksin í samtali við fréttamenn.
Bandaríkjamenn og Japanar hvöttu í gær yfirvöld í Taílandi og nágrannaríkjum til að beita sér af öllum mætti fyrir lýðræðisþróun í Búrma og knýja á um frelsun Suu Kyi en hún hefur verið í stofufangelsi frá 30. maí sl.