Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstæðinga í Asíuríkinu Búrma, neitar að fara úr stofufangelsi, þrátt fyrir að herforingjastjórnin hafi sleppt henni. Hún segist ekki kæra sig um frelsi fyrr en 35 félögum hennar, sem handteknir hafa verið síðan í maí, fái líka frelsi.
Aung San Suu Kyi var hneppt í stofufangelsi eftir átök milli stuðningsmanna hennar og stjórnarliða þann 30. maí sl. Þrátt fyrir þrýsting frá fjölmörgum ríkjum, svo sem Bandaríkjunum, hefur herforingjastjórnin í landinu ekki viljað leysa hana úr haldi fyrr en nú.
Aung San Suu Kyi, sem er 58 ára, hefur tvisvar áður setið í stofufangelsi. Fyrst frá 1989-1995. Öðru sinni sat hún í stofufangelsi í 20 mánuði, en var leyst úr haldi í maí árið 2002.